Erlent

Gengu í þögn til minningar um fórnarlömb eldsins í Grenfell turni

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Margir létu lífið í brunanum sem átti sér stað um miðjan júní.
Margir létu lífið í brunanum sem átti sér stað um miðjan júní. Vísir/AFP
Þeir sem komust lífs af eftir brunann í Grenfell turninum í London gengu í þögn umhverfis staðinn til minningar og heiðurs þeim sem létu lífið í brunanum. Sérstaklega var beðið um að fólkið fengi að ganga í friði án ágengra spurninga blaðamanna og ljósmyndara. Þetta kemur fram í frétt Independent.

Gangan var skipulögð af Grenfell United samtökunum, sem stofnuð voru í kjölfar eldsins sem stuðningur við þá sem lifðu af. Gangan var erfið fyrir marga og sumir sögðust endurupplifa atvikið í þögninni sem umlukti staðinn. Um það bil fimmtíu manns gengu saman.

Rannsókn á málinu hefur sannað að klæðning byggingarinnar var mjög eldfim og því breiddist eldurinn svo hratt út. Klæðningin var samþykkt af verkstjóra byggingaframkvæmda sem sá um byggingu turnsins og var hún samþykkt þegar búið var að klæða um helming turnsins. Þá höfðu aðilar úr byggingareftirliti komið á stað sextán sinnum og alltaf staðfest að allt væri eðlilegt og samkvæmt reglum. 

Svipaðar klæðningar er að finna á 44 skólabyggingum í Skotlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×