Körfubolti

Risinn skrifaði undir í Njarðvík

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Nathanaelsson og Páll Kristinsson ganga frá málum í kvöld.
Ragnar Nathanaelsson og Páll Kristinsson ganga frá málum í kvöld. mynd/njarðvík
Njarðvíkingar voru heldur betur að styrkja sig fyrir átökin í Domino´s-deild karla næsta vetur en í kvöld gekk félagið frá samningum við risann Ragnar Nathanaelsson.

Ragnar, sem spilaði í næstefstu deild á Spáni síðasta vetur, skrifaði undir tveggja ára samning við Njarðvík en þessi 218 cm hávaxni miðherji hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár.

„Ragnar er okkur hvalreki er búist við miklu af þessum einstaka leikmanni,“ segir í fréttatilkynningu Njarðvíkinga en fá lið hafa verið í meira basli með hæð undir körfunni undanfarin misseri en Ljónin í Njarðvík.

Páll Kristinsson, varaformaður KKD Njarðvíkur, skrifaði undir með Ragnari í kvöld en vegna skorts á hæð í liðinu á síðustu leiktíð þurfti hinn fertugi Páll að spila með þeim grænu. Hann fagnar komu Ragnars vafalítið meira en nokkur maður.

Njarðvík hafnaði í níunda sæti á síðustu leiktíð og missti af úrslitakeppninni í fyrsta sinn í 24 ár. Það á greinilega ekki að gerast aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×