Erlent

Vopnahlé í Suður-Sýrlandi tekið gildi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Vopnahlé tók gildi í hádeginu í dag að staðartíma í suðvesturhluta Sýrlands, eða klukkan níu í morgun að íslenskum tíma, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Vopnahléð, sem samkomulag náðist um fyrir tilstilli Rússa og Bandaríkjamanna, er enn ein tilraunin til að stilla til friðar í stríðinu í Sýrlandi sem geisað hefur í sex ár. Bandaríkin, Rússland og Jórdanía náðu fyrr í þessari viku samkomulagi um að leggja niður vopn tímabundið en vonir standa til að samkomulagið geti orðið grundvöllur lengra vopnahlés.

Tilkynning um vopnahlé kom strax eftir fund milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og Vladimír Pútín á fundi G20 ríkjanna í Hamborg á föstudag.

Vladimir Pútín og Donald Trump sömdu um vopnahléð á fundi G20 á föstudag.Vísir/AFP
Stjórnarher Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hefur notið stuðnings rússneska flughersins í formi loftárása og vígasveita sem studdar eru af Írönum. 

Uppreisnarmenn samanstanda af mörgum hópum, aðallega úr röðum súnní-múslíma. Þar má nefna hópa sem studdir eru af Tyrkjum, Bandaríkjamönnum og ríkjunum við Persaflóa. 

Drög að samkomulagi hafa náðst milli Rússa og Bandaríkjamanna um að sett verði upp herlaust svæði í suðvesturhluta Sýrlands við landamæri Jórdaníu. 

Reuters greinir frá því að frekari samningaviðræður séu þó nauðsynlegar milli ríkjanna til að útlista nánar skipulag þess. Haft er eftir Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa að á svæðinu verði settar upp miðstöðvar fyrir mannúðaraðstoð og komið verði á tengiliðum milli andstæðra fylkinga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×