Erlent

Sérstakur og sjálfstæður lögmaður skipaður vegna brunans í Lundúnum

Heimir Már Pétursson skrifar
Elísabet drottning og Karl krónprins.
Elísabet drottning og Karl krónprins. Vísir/afp
Breska ríkisstjórnin ætlar að skipa sérstakan lögmann fyrir íbúa Grenfell-turnsins sem brann í Lundúnum í síðustu viku. Þá heitir stjórnin því að ná sem bestum samningi við Evrópusambandið og nýjum viðskiptasamningum við ríki um allan heim.

Elísabet Bretlandsdrotting flutti stefnuræðu Theresu May forsætisráðherra í breska þinginu í dag og fylgdi Karl erfðaprins henni að þessu sinni því eiginmaðurinn Philip var lagður á spítala síðastliðna nótt vegna sýkingar. Ekki er þó talin ástæða til að hafa áhyggjur af Philip, sem er orðinn 96 ára.

„Ríkisstjórn mín mun koma á nákvæmri opinberri rannsókn á hinum sorglega bruna í Grenfell-turninum til að komast að orsökum hans og tryggja að viðeigandi lærdómur sé dreginn. Til að styðja við fórnarlömb mun ríkisstjórn mín stíga skref til að koma á embætti sjálstæðs opinbers lögmanns, sem mun fara fyrir syrgjandi fjölskyldum eftir hamfarir og styðja þær við opinberar rannsóknir,“ las drottningin upp úr stefnuræðunni.

Þá á að endurskoða hryðjuverkalög landsins eftir hryðjuverkin í Manchester og tryggja að lögregluyfirvöld hafi allar þær heimildir sem þau telja sig þurfa.

Fátt nýtt kom hins vegar fram varðandi stefnuna í Evrópumálum annað en tryggja eigi góðan samning við Evrópusambandið.

„Ríkisstjórn mín mun leitast við að viðhalda djúpu og sérstöku sambandi við bandamenn okkar í Evrópu og beita sér fyrir viðskiptatengslum um allan heim,“ sagði Elísabet II við þingsetningu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×