Menning

Saumar veggteppi byggt á Riddarateppinu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sólveig Hrönn er nýútskrifuð af fornmáladeild í Menntaskólanum í Reykjavík og stefnir á nám í fornfræði í vetur.
Sólveig Hrönn er nýútskrifuð af fornmáladeild í Menntaskólanum í Reykjavík og stefnir á nám í fornfræði í vetur. vísir/eyþór
Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir er 19 ára gömul og fæst nú við öðruvísi sumarstarf en flestir. Á vegum Skapandi sumarstarfa í Garðabæ er hún að sauma veggteppi byggt á hinu fræga Riddarateppi sem er til sýnis í Þjóðminjasafninu.

„Ég var að vinna í Skapandi sumarstörfum í fyrra og mér fannst það mjög skemmtilegt þannig að ég ákvað að sækja um aftur í ár en með öðruvísi verkefni. Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að gera eitthvað í höndunum. Í fyrra fór ég að pæla í útsaumi og viðhorfi til útsaums. Svo sótti ég um með það í huga að gera útsaumsverk og mér fannst spennandi hugmynd að ætla bara að gera eitt verk yfir sumarið,“ segir Sólveig.

„Það hljómar eins og lítið þegar maður segist ætla að gera eitt verk en þegar maður sér það skilur maður af hverju var bara hægt að gera eitt verk.“

Sólveig hefur verið að rannsaka sögu handverks íslenskra kvenna og lýtur verk hennar meðal annars að nafnleysi saumakvenna fyrri alda og tímanum að baki útsaumsverkum.

Sólveig veit ekki enn þá hversu stórt verk hennar verður. „Riddarateppið sjálft er held ég 130 x 160 cm. Ég ætla að byrja á að gera myndirnar sex sem eru í miðjunni og í kringum þær eru drekar sem mig langar að gera líka. Þannig að í rauninni er erfitt að segja til um hversu stórt þetta verður."

Útsaumsverk hafa varðveist illa og eru að jafnaði höfundarlaus. Það einskorðast ekki við Ísland en saumur, vefnaður og aðrar hannyrðir þóttu einungis kvenlegar greinar og voru flokkaðar sem nytjalist en ekki alvöru listgreinar. Með verkefninu langar Sólveigu að sýna hversu mörg spor felast í einu dagsverki og efla vitund um gildi handverks og þá vinnu sem liggur að baki.

Skapandi sumarstörf vara í átta vikur. Sólveig segir verkefnið fara vel af stað hjá sér og mun hún sýna það í lok júlí.

Sólveig er nýútskrifuð af fornmáladeild í Menntaskólanum í Reykjavík. Hún hyggur á að hefja háskólanám í fornfræði í vetur. „Það mætti kannski segja að ég sé áhugasöm um gamla tíma," segir hún. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.