Viðskipti innlent

Fjármálaeftirlitið bitlaust og skortir sjálfstæði

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Starfsfólk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur áhyggjur af því að Fjármálaeftirlitið á Íslandi sé bitlaust og skorti sjálfstæði. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur í mörg ár þrýst á að rammalöggjöf um fjármálaeftirlit verði endurskoðuð en ekki hefur verið brugðist við því.

Í nýrri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland segir að það þurfi að vera í algjörum forgangi að efla fjármálaeftirlit á Íslandi. „Top priority“ er orðalagið sem starfsmenn sjóðsins nota. Þá er rakið að Ísland hafi fengið lélega einkunn í mati AGS á því hvernig gengi að fylgja meginreglum Basel-nefndarinnar um skilvirkt fjármálaeftirlit en þar var komist að þeirri niðurstöðu að FME á Íslandi væri bitlaust og skorti sjálfstæði.

„Það er svolítill ágreiningur á milli okkar og AGS hvað þetta varðar. Þegar þau segja að okkur skorti sjálfstæði, það teljum við vera byggt á misskilningi. Þegar þau tala um að okkur skorti bit þá er það tvennt: Annars vegar að nú er búið að innleiða nýju Evrópusambandsbankatilskipunina sem að hefur veitt okkur gífurlega auknar valdheimildir sem ekki voru 2014.“

Urður Gunnarsdóttir, forstjóri FME.Vísir/Vilhelm
„Í öðru lagi telja þau að, sem er ekki alveg í samræmi við okkar réttarhefð, að FME eigi að hafa opna heimild til að setja bindnandi reglur,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur til endurskoðunar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en það er löggjöfin sem FME starfar eftir. Unnur hefur í nokkur ár kallað eftir endurskoðun þessarar löggjafar.

„Ég hef talið um nokkurt skeið að það væri mjög tímabært að fara yfir rammalöggjöfina og endurskoða hana. Það hefur ekki verið sett í forgang ennþá,“ segir Unnur.

Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í fréttum okkar í gær að löggjöfin yrði endurskoðuð í ljósi athugasemda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×