Fótbolti

Pepe segist vera á förum frá Real Madrid í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe með Meistaradeildarbikarinn sem Real Madrid vann á dögunum.
Pepe með Meistaradeildarbikarinn sem Real Madrid vann á dögunum. Vísir/Getty
Portúgalinn Pepe hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Real Madrid en hann segist vera á förum frá félaginu í sumar.

Pepe hefur spilað í tíu ár með Real Madrid og á að baki 334 leiki með liðinu. Hann hefur hjálpað Real Madrid að vinna spænsku deildina þrisvar og Meistaradeildina þrisvar sinnum.

Pepe varð Evrópumeistari með Portúgal í Frakklandi síðasta sumar en var ekki með fast sæti í byrjunarliði Real á þessu tímabili. Pepe missti líka af lokakaflanum vegna meiðsla en aðalmiðverður Real-liðsins voru þeir Sergio Ramos og Raphaël Varane.

„Zinedine Zidane gerði stórkostlega hluti með Real Madrid liðið en það eru samt hlutir sem ég skil ekki,“ sagði Pepe í viðtali spænsku útvarpsstöðina COPE.

„Ég sagði í raun ekki bless því þeir vissu af þessu áður en ég vissi það,“ sagði Pepe.

Hann hefur verið orðaður við franska félagið Paris Saint-Germain en talaði um það í viðtalinu að það væri líka áhugi frá enskum félögum.

„Ég er mjög stoltur af árum mínum hjá Real þar sem ég hef gefið allt mitt, líkamlega og andlega. Ég tók þessa ákvörðun í janúar þegar ég sá í hvað stefndi,“ sagði Pepe.

Pepe er fæddur í febrúar 1983 og verður því 35 ára gamall á næstu leiktíð. Hann kom til Real Madrid frá Porto árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×