Enski boltinn

Bale: Þarf verkjalyf til að komast í gegnum leiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gareth Bale í leik með Real Madrid.
Gareth Bale í leik með Real Madrid. Vísir/Getty
Gareth Bale segist ekki vera heill heilsu nú í aðdraganda úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu.

Real Madrid mætir Juventus í úrslitaleiknum á laugardagskvöld en hann fer fram í Cardiff í Wales, heimalandi Bale.

Hann var sagður ólmur í að spila úrslitaleikinn en Bale hefur ekki komið við sögu síðan að meiðsli tóku sig upp í leik gegn Barcelona þann 23. apríl.

„Ef ég verð beðinn um að vera í byrjunarliðinu, þá verð ég augljóslega í byrjunarliðinu,“ sagði Bale í samtali við fjölmiðla ytra.

Bale hefur tvívegis orðið Evrópumeistari með Real Madrid en hann skoraði í báðum úrslitaleikjunum - í 4-1 sigri á Atletico Madrid árið 2014 og í vítaspyrnukeppni er Real vann Atletico á ný árið 2016.

Hann viðurkennir þó að hann sé ekki heill heilsu. „Ég er ekki hundrað prósent. Ég fór í ökklaaðgerð (í nóvember) og hef ekki enn algerlega náð mér. Ég hef verið verkjaður á æfingum og þurft að taka verkjalyf til að komast í gegnum leiki,“ sagði Bale.

„Það er alltaf erfitt að fara í aðgerð en sérstaklega erfitt á meðan tímabilinu stendur. Maður vill koma til baka eins fljótt og mögulegt er.“

„Eftir á að hyggja hefði ég átt að vera lengur á hliðarlínunni og gefa mér meiri tíma til að ná mér og styrkja mig. Ég læri af þessu.“

Isco hefur staðið sig vel í liði Real Madrid í fjarveru Bale og gæti það reynst erfitt fyrir Walesverjann að ýta honum úr liðinu fyrir leikinn gegn Juventus á laugardagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×