Körfubolti

Tveir bestu leikmenn Fjölnis spila báðir með Stjörnunni næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Talið frá vinstri: Collin Anthony Pryor, Róbert Sigurðsson, Ingimundur Orri Jóhannsson, Dúi Þór Jónsson og Árni Gunnar Kristjánsson.
Talið frá vinstri: Collin Anthony Pryor, Róbert Sigurðsson, Ingimundur Orri Jóhannsson, Dúi Þór Jónsson og Árni Gunnar Kristjánsson. Mynd/Fésbókarsíða Stjörnunnar
Róbert Sigurðsson, besti leikmaður 1. deildar karla á síðasta tímabili, hefur gert samning við Stjörnuna og mun því spila með Garðabæjarliðinu í Dominos-deild karla á næsta tímabili.

Stjörnumenn hafa því fengið til sína tvo bestu leikmenn Fjölnisliðsins því Collin Anthony Pryor gekk til liðs við Stjörnuna fyrr í mánuðinum.

Róbert er 23 ára og var með 19,2 stig, 4,3 fráköst, 7,5 stoðsendingar og 1,5 stolinn bolta að meðaltali í 1. deildinni á síðasta tímabili og var valinn besti leikmaður deildarinnar. Hann hefur leikið allann sinn feril með Fjölni.

Collin Anthony Pryor er 27 ára gamall og tveggja metra hár framherji sem var með 21,1 stig, 12 fráköst, 3,2 stoðsendingar og 29,7 framlagspunkta að meðaltali í leik í fyrra. Collin kemur einnig frá Fjölni en hóf feril sinn hér á landi með Fsu árið 2013 og er að hefja sitt fimmta tímabil á Íslandi og hyggst setjast að hér á landi og hefur nú þegar sótt um íslenskan ríkisborgararétt.

Stjarnan segir frá þessu á fésbókarsíðu sinni en félagið skrifaði þá undir samning við fimm leikmenn á Mathúsi Garðabæjar. Auk þeirra Róbert og Collins þá skrifuðu líka þrír ungir leikmenn við liðið.

Ingimundur Orri Jóhannsson, Árni Gunnar Kristjánsson og Dúi Þór Jónsson skrifuðu undir samning við Stjörnuna um að taka slaginn með meistaraflokki á næsta tímabili. Allir eru þeir uppaldir Stjörnumenn og meðlimir í sextán ára landsliði Íslands. Þeir eru allir fæddir árið 2001 og urðu Íslands- og bikarmeistarar með 10. flokki Stjörnunnar í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×