Körfubolti

Ferðin hans Ívars smátt og smátt að breytast í eina bestu skíðaferð allra tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari meistaraflokks Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari meistaraflokks Hauka. Vísir/Ernir
Ívar Ásgrímsson, þjálfari meistaraflokks Hauka, fékk mikla gagnrýni þegar hann stakk af í skíðaferð á miðju tímabili í vetur og sleppti einum leik hjá Haukum í Domino´s deild karla í körfubolta.

Ferðin hans Ívars er hinsvegar smátt og smátt að breytast í eina bestu skíðaferð alla tíma því liðin hans Ívars hafa öll farið á kostum síðan að hann kom endurnærður heim uppfullur af fjallaloftinu úr Ölpunum.

Ívar hafði ákveðið fyrir tímabilið að fara í umrædda skíðaferð og tímasetningin var valin þegar liðið mætti lélegasta liði deildarinnar. Haukarnir stefndu á toppbaráttu eins og árið áður en það bjóst enginn á Ásvöllum við að liðið væri á þessum tíma að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Haukarnir voru hinsvegar í bullandi fallbaráttu þegar kom að leiknum og höfðu tapað þremur leikjum í röð. Það mátti því ekkert klikka á móti Snæfelli en þá var þjálfarinn floginn út.

Fjarvera Ívars virtist hinsvegar vera það sem Haukaliðið þurfti til að reka af sér slyðruorðið. Haukarnir unnu þetta öruggan 102-83 sigur á Snæfelli og fögnuðu með því að spila „Á skíðum skemmti ég mér“ í leikslok.

Ívar stýrði liðinu síðan til sigurs á Stjörnunni og Tindastól í fyrstu tveimur leikjunum eftir að hann kom heim. Stjarnan endaði tímabilið í öðru sæti og Tindastóll í því þriðja þannig að Haukarnir sýndu í þessum tveimur leikjum hvað liðið gat verið gott.

Ívar var hinsvegar ekki hættur þótt að Haukarnir hafi ekki komist í úrslitakeppni Domino´s deildarinnar því við tóku úrslit yngri flokkanna þar sem hann þjálfaði bæði drengjaflokk og unglingaflokk hjá Haukum.

Ívar stýrði báðum liðum inn í undanúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn og á síðustu tveimur helgum hefur hann síðan gert bæði liðin að Íslandsmeisturum.

Unglingaflokkur Hauka vann Íslandsmeistaratitilinn á Flúðum um helgina og drengjaflokkurinn hafði viku áður tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Grafarvogi.

Síðan að Ívar kom heim úr skíðaferðinni hafa liðin hans hjá Haukum unnið 14 af 18 leikjum, bjargað sér örugglega frá falli og unnið tvo Íslandsmeistaratitla.

Ívar fékk líka endurráðningu eftir tímabilið og framtíðin ætti að vera mjög björt hjá Haukum með Íslandsmeistaraleikmenn í tveimur elstu karlaflokkunum.

Hér fyrir neðan má sjá sigurgöngu Ívars Ásgrímssonar og liða hans eftir að hann kom heim úr skíðaferðinni.

Tímabilið er ekki alveg búið hjá Ívari því framundan eru leikir íslenska kvennalandsliðsins á Smáþjóðaleikunum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann haldi sigurgöngu sinni áfram þar.



Ívar Ásgrímsson eftir skíðaferðina umdeildu

Meistaraflokkur karla 100%

2 leikir - 2 sigrar

Björguðu sér frá falli

Unglingaflokkur karla 100%

7 leikir - 7 sigrar

Unnu 7 síðustu leikina

Íslandsmeistarar

Drengjaflokkur karla 56%

9 leikir - 5 sigrar

Unnu 4 síðustu leikina

Íslandsmeistarar

Samanlagt 78%

18 leikir - 14 sigrar

2 Íslandsmeistaratitlar


Tengdar fréttir

Ívar: Bara hlegið og öskrað í Körfuboltakvöldi

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, reyndi að halda uppi vörnum fyrir sjálfan sig í gær eftir skíðaferðina frægu sem hann fór í er Haukar spiluðu mikilvægasta leik tímabilsins fyrir síðustu helgi.

Fjarvera Ívars getur hjálpað til

Kjartan Freyr Ásmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, segir að þó svo hann hefði viljað hafa þjálfarann sinn, Ívar Ásgrímsson, á landinu þá geti það verið ágætt fyrir liðið að vera án þjálfarans um tíma.

Finnur Atli: Landið er á móti Haukum

Finnur Atli Magnússon, leikmaður Hauka, sér jákvæðar hliðar við alla umfjöllunina um Haukana og skíðaferð þjálfarans, Ívars Ásgrimssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×