Menning

Spennumynd með draugaívafi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Óskar Þór finnur fyrir spenningi í þjóðfélaginu fyrir nýju myndinni.
Óskar Þór finnur fyrir spenningi í þjóðfélaginu fyrir nýju myndinni. Vísir/GVA
Óskar Þór Axelsson kvikmyndagerðarmaður hefur haft veg og vanda af tökum myndarinnar Ég man þig. Hann viðurkennir að finna fyrir talsverðum spenningi í þjóðfélaginu fyrir frumsýningunni í kvöld í Háskólabíói, bæði hjá eldra fólk og yngra.

„Yrsa á aðdáendur á öllum aldri og Ég man þig er ábyggilega hennar frægasta bók, bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur fengið afbragðsgóða dóma alls staðar og það hefur hjálpað mikið til í öllu okkar ferli.“

Óskar Þór skrifaði handritið ásamt Ottó Geir Borg. „Í raun er um tvær aðskildar sögur að ræða sem tengjast þegar á líður. Haustið 2015 tókum við upp þá sögu sem gerist á Hesteyri. Fengum þokkalega ákjósanlegt veður, það snjóaði aðeins undir lokin en ef allt hefði verið á kafi í snjó hefði það verið bagalegt því auðvitað mega ekki vera spor neins staðar.

Atriðin úr húsinu eru tekin í Grindavík. Þar þurftum við að bræða snjó af jörðinni með heitu vatni af því enginn snjór var í útitökunum fyrir vestan. Svo þökulögðum við götu beint fyrir framan húsið til að láta allt passa. Síðasta daginn vorum við á Árbæjarsafni, það var stóri snjóadagurinn þann veturinn, við vorum aðallega inni og tjölduðum yfir okkur úti. Þetta er partur af því að taka myndir á Íslandi.“

Þegar seinni helmingurinn var tekinn síðasta haust rigndi mikið, að sögn Óskars Þórs. „Það lúkkar alltaf vel í mynd og hér er um hráslagalegt efni að ræða, spennumynd með draugaívafi.“

Nú er Óskar Þór í miðjum tökum á sjónvarpsseríunni Stellu Blómkvist. „Það eru sex þættir og við erum búin með einn þriðja en áætlum að ljúka tökum um miðjan júní,“ lýsir hann. Skyldi höfundurinn vera í sambandi við hann?

„Nei, hinn óþekkti höfundur er ekki í beinu sambandi við mig en hann hafði smá samskipti við framleiðendur þegar rétturinn var keyptur og einnig við handritshöfunda en það er allt í gegnum einhverja síu. Þetta er eins og að vera í njósnamynd og ég vil að það haldist. Þá geta allir haldið áfram að giska á hver höfundurinn er, það er gaman að því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.