Erlent

McCann-hjónin halda enn í vonina eftir tíu ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvarf Madeleine vakti heimsathygli á sínum tíma.
Hvarf Madeleine vakti heimsathygli á sínum tíma. Vísir/AFP
Tíu ár verða liðin frá því að breska stúlkan Madeleine McCann hvarf sporlaust í vikunni. Foreldrar hennar er þrátt fyrir það ekki úrkula vonar og heita því að gera hvað sem til þarf, eins lengi og til þarf til að finna hana.

Hvarf Madeleine, sem þá var þriggja ára gömul, vakti heimsathygli árið 2007. Stúlkan var með foreldrum sínum í fríi í Portúgal þegar hún hvarf úr íbúð í Praia da Luz.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í tilefni tímamótanna segja McCann-hjónin að breska lögreglan hafi náð raunverulegum árangri í rannsókn málsins undanfarin fimm ár.

„Það er enn von um að við finnum Madeleine,“ segir móðir hennar Kate.

Fjórir rannsóknarlögreglumenn vinna nú að rannsókninni í Bretlandi og hefur ellefu milljónum punda verið varið í hana. Upphaflega rannsókn portúgölsku lögreglunnar skilaði litlu. Þó að rannsóknin hafi verið skorin niður frá því sem áður var hefur henni verið tryggt fjármagn þangað til í september í það minnsta.

Til að bæta gráu ofan á svart skrifaði þarlendur fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður bók um hvarf stúlkunnar þar sem hann gaf í skyn að foreldrarnir gætu hafa sett það á svið. Dómstóll lagði bann við útgáfu bókarinnar en hæstiréttur Portúgal felldi það úr gildi.

Faðir Madeleine, Gerry, segir bresku rannsóknina ekki hafa leitt neitt í ljós sem bendi til þess að dóttir hans sé látin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×