Íslenski boltinn

Anton Ari ver mark Vals næstu tvö árin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Ari spilaði alla leiki Vals í Pepsi-deildinni í fyrra nema tvo.
Anton Ari spilaði alla leiki Vals í Pepsi-deildinni í fyrra nema tvo. vísir/hanna
Markvörðurinn Anton Ari Einarsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Val.

Anton Ari, sem er 23 ára, var aðalmarkvörður bikarmeistara Vals nánast allt síðasta tímabil. Hann lék 20 leiki með Val í Pepsi-deildinni í fyrra og alla fimm leikina í Borgunarbikarnum.

Anton Ari er uppalinn hjá Aftureldingu en hann kom til Vals fyrir tímabilið 2014. Þá lék Anton Ari sex leiki í Pepsi-deildinni, auk þess sem hann spilaði níu leiki fyrir Tindastól í 1. deildinni.

Í upphafi síðasta tímabils var Anton Ari lánaður til Grindavíkur en náði aðeins að leika einn leik með liðinu í Inkasso-deildinni áður en Valur kallaði hann til baka.

Á síðustu mánuðum hefur Anton Ari bæði verið valinn í U-21 árs og A-landsliðið.

„Ég er mjög ánægður með að hafa framlengt samning minn hér hjá Val, mér líður mjög vel og er ánægður með stöðu mála. Óli, Bjössi og Rajko eru frábærir þjálfarar, það er mjög gaman á æfingum sem skiptir miklu máli,“ sagði Anton Ari í samtali við heimasíðu Vals.

„Leikmannahópurinn er mjög sterkur og stemmingin í honum er góð. Við erum búnir að æfa mjög vel í vetur þannig að mér lýst vel á sumarið. Valur er í mikilli uppbyggingu og það er mikið að gerst í klúbbnum núna og á næstu árum og því hlakka ég mikið til komandi tíma hér í Val.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×