Körfubolti

Nú var lukkan ekki með Friðriki Inga 11. apríl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson.
Friðrik Ingi Rúnarsson. Vísir/Ernir
11. apríl hafði fyrir gærkvöldið verið einstaklega góður dagur á þjálfaraferli Friðriks Inga Rúnarssonar í úrvalsdeild karla í körfubolta en fyrrnefnd lukka var ekki með honum í gær.

Friðrik Ingi og lærisveinar hans töpuðu þá naumlega fyrir KR í fjórða leik undanúrslitaeinvígis KR og Keflavíkur og þar með er KR komið í lokaúrslitin en Keflavík í sumarfrí.

Hlutirnir féllu ekki með Keflavíkur í tveimur síðustu leikjum undanúrslitaeinvígisins sem Keflavík tapaði með samtals fimm stigum, fyrst þriðja leiknum 88-91 í Vesturbænum og svo fjórða leiknum 84-86 í Keflavík í gær.

Krisófer Acox, sem kom inn í KR-liðið í miðri úrslitakeppni, varði skot Harðar Axel Vilhjálmssonar í lokin og sá til þess að Keflvíkingar náðu ekki að tryggja sér framlengingu.

En aftur af þýðingu 11. apríl í þjálfarasögu Friðriks Inga Rúnarssonar. Hann hafði nefnilega tvisvar gert lið að Íslandsmeisturum á þessum degi, fyrst Njarðvík 1991 og svo aftur með Grindavík 1996.

Njarðvík vann Keflavík í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn 11. apríl 1991. Leikurinn fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík og Njarðvíkurliðið vann 84-75. Gunnar Örlygsson, fyrrum formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, skoraði 27 stig í leiknum og bróðir hans Teitur Örlygsson var með 15 stig.

Grindavík vann einnig Keflavík þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 11. apríl 1996 en sá leikur fór fram í Keflavík. Grindvíkingar unnu 23 stiga sigur, 96-73, þar sem Hjörtur Harðarson, núverandi aðstoðarmaður hans hjá Keflavík, var með 18 stig. 8 fráköst og 8 stoðsendingar.

Friðrik Ingi Rúnarsson hefur einu sinni til viðbótar gert lið að Íslandsmeisturum en Njarðvík varð Íslandsmeistari undir hans stjórn 19. apríl 1998.

Friðrik Ingi getur hinsvegar verið stoltur af sér og sýni liði á tímabilinu. Hann tók við Keflavíkurliði í tómu tjóni í febrúar og breytti því í eitt besta lið landsins sem lét virkilega reyna að stjörnuprýtt KR-lið í undanúrslitunum.

Það kemur  líka 11. apríl eftir þennan og hver veit nema að Keflavíkurliðið fagni sigri á þessum degi eftir eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×