Viðskipti innlent

Skúli stefnir á tvöföldun með stærstu flugvélapöntun WOW

Kristján Már Unnarsson skrifar
WOW-air hefur tilkynnt um stærstu flugvélapöntun í sögu félagsins; sjö nýjar Airbus-þotur, þar af fjórar breiðþotur sem draga til Asíu. Eigandinn, Skúli Mogensen, stefnir að því að tvöfalda farþegafjöldann upp í sex milljónir á næstu tveimur árum. Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan.

Það eru aðeins tæp fimm ár frá því WOW fór í sitt sitt fyrsta flug en það var til Parísar vorið 2012. Fyrir tveimur árum hóf félagið Ameríkuflug, fékk þotur af gerðinni Airbus A-321, og í fyrra komu svo fyrstu breiðþoturnar af gerðinni Airbus A-330 um leið og vesturströnd Ameríku bættist við.

Airbus A-330 breiðþota WOW Air.Vísir/Steingrímur Þórðarson
Og nú er Skúli Mogensen búinn að gera enn einn risasamninginn. 

„Þetta er stærsta pöntun sem við höfum gert til þessa,“ segir forstjóri og eigandi WOW-air. 

Sjö nýjar Airbus-þotur, þar af fjórar 365 sæta Airbus A330-900neo breiðþotur, en listaverð hverrar vélar er um 32 milljarðar króna, á við Búðarhálsvirkjun. Flugflotinn fer upp í 24 vélar fyrir lok næsta árs. Félagið er nú með 17 þotur, var með 12 í fyrra. Langdrægni nýju vélanna býður upp á spennandi tækifæri. 



„Það er það sem er áhugavert. Þá getum við bókstaflega skoðað allan hnöttinn sem tilvonandi áfangastaði.“ 

Skúli vill ekki nefna hvaða borgir séu í sigtinu en við spyrjum um Asíu: 

„Asía er mjög spennandi markaður. Bæði erum við að sjá nú þegar mikinn vöxt þaðan til Íslands, þrátt fyrir að þaðan séu dýr fargöld og þú þarft að stoppa á 1-2 áfangastöðum til að komast hingað. Þannig að við erum að horfa hýru auga til Asíu.“ 

Airbus A-321 á Reykjavíkurflugvelli fyrir tveimur árum.Vísir/vilhelm
Hann fæst ekki til að gefa upp hvort Kína og Japan séu sérstaklega til skoðunar. 

„Það kemur allt í ljós. Í augnablikinu erum við bara að fagna því að vera að bæta við Miami á miðvikudaginn, fyrsta flug til Miami á miðvikudaginn. Svo erum við að fara til Pittsburgar, við vorum að kynna Chicago, erum að fara að fljúga til Brussel, Edinborgar og svo framvegis. Þannig að þetta er bara áframhaldandi hlaup, - og flug.“ 

Svo mikið er víst, það er stefnt á ævintýralegan vöxt. 

„Við gerum ráð fyrir að tvöfalda fjölda farþega á næstu tveimur árum. Í ár erum við með þrjár milljónir farþega. Við gerum ráð fyrir að fara upp í sex milljónir farþega árið 2019,“ segir Skúli Mogensen.


Tengdar fréttir

Milljarðahagnaður WOW air á liðnu ári

Tekjur flugfélagsins jukust gríðarlega á milli ára, eða um 111 prósent, en tekjurnar í fyrra námu alls 36,7 milljörðum króna. Árið 2015 voru þær 17 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×