Körfubolti

KR-liðið hefur unnið fyrsta leikinn í tíu seríum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR.
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR. Vísir/Anton
Íslandsmeistarar KR tekur á móti Keflavík í DHL-höllinni klukkan 19.15 í kvöld í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í úrslitakeppni Domino´s deild karla í körfubolta.

Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni á Stöð 2 Sport eins og allir leikir úrslitakeppninnar hér eftir.  

KR vann alla þrjá leiki sína á móti Þór Akureyri í átta liða úrslitum en hefur ekki spilað í níu daga. Keflvíkingar tryggðu sér sæti í undanúrslitunum fyrir sex dögum síðan.

KR-ingar hafa ekki tapað seríu í úrslitakeppni í fjögur ár og í öllum þessum seríum hefur KR-liðið komist í 1-0.

KR er þannig búið að vinna fyrsta leikinn í tíu seríum í röð í úrslitakeppninni. KR tapaði síðast fyrsta leik í undanúrslitum á móti Grindavík vorið 2013. Grindavík vann einvígið 3-1 og fór síðan alla leið og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

KR-ingar hafa spilað alla þessa tíu opnunarleiki einvíganna á heimavelli sínum í Frostaskjólinu og svo verður einnig í kvöld.

KR vann Njarðvík í fyrsta leik undanúrslitanna í fyrra eftir tvíframlengdan leik og lenti einnig í framlengingu í fyrsta leik á móti Stjörnunni í fyrsta leik undanúrslitanna árið 2014.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir hvernig þessir leikir KR hafa farið undanfarin ár.



Fyrsti leikur KR-liðsins í síðustu tíu seríum í úrslitakeppni:

2014

8 liða úrslit: 22 stiga sigur á Snæfelli (98-76) - 3-0

Undanúrslit: 3 stiga sigur á Stjörnunni í framlengingu (94-91) - 3-1

Lokaúrslit: 9 stiga sigur á Grindavík (93-84) - 3-1

2015

8 liða úrslit: 6 stiga sigur á Grindavík (71-65) - 3-0

Undanúrslit: 17 stiga sigur á Njarðvík (79-62) - 3-2

Lokaúrslit: 20 stiga sigur á Tindastól (94-74) - 3-1

2016

8 liða úrslit: 18 stiga sigur á Grindavík (85-67) - 3-0

Undanúrslit: 2 stiga sigur á Njarðvík í framlengingu (69-67) - 3-2

Lokaúrslit: 30 stiga sigur á Haukum (91-61) - 3-1

2017

8 liða úrslit: 31 stigs sigur á Þór Ak. (99-68) - 3-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×