Innlent

Ríkið setji hömlur á hækkun leiguverðs og reki eigin leigufélög

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Það verður að teljast nokkuð aumt hvað okkur hefur lítið miðað í rétta átt í þessum málum," segir Einar.
"Það verður að teljast nokkuð aumt hvað okkur hefur lítið miðað í rétta átt í þessum málum," segir Einar. vísir/eyþór
„Það verður að teljast nokkuð aumt hvað okkur hefur lítið miðað í rétta átt í þessum málum,“ segir Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, um húsnæðismál hér á landi. Hann segir að aðgerða sé þörf og leggur til að ríkið taki virkari þátt í þessum málum, meðal annars með hömlum á hækkun leiguverðs og eigin leigufélögum.

„Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að gera meira til að útvega fólki þak yfir höfuðið. Til dæmis með því að stuðla að hagstæðum aðstæðum á leigumarkaði, ekki síst með ákveðnum hömlum á hækkun leiguverðs, líkt og þekkist sums staðar erlendis. Auk þess þætti mér eðlilegt og sjálfsagt að ríkið ræki eigin leigufélög þar sem þeir sem standa höllum fæti gætu fengið inni,“ sagði Einar á Alþingi í dag.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar, lýsti sömuleiðis yfir áhyggjum af stöðu húsnæðismála, en hann er þeirrar skoðunar að leigufélög hafi leitt til þessarar miklu hækkunar á leiguverði.

„Aukin áhrif leigufasteignafélaga á markaði hafa leitt til þess að þau hafa keypt heilu fjölbýlishúsin til að stækka eignasafn sitt og um leið veitt leigjendum aðgengi að húsnæði. Tilkoma þessara leigufélaga hafa valdið því að æ fleiri berjast um húsnæði og leiguverð stórhækkar. Verst bitnar þetta á eignalitlum einstaklingum og barnafjölskyldum sem eiga ekki eigið húsnæði,“ sagði Guðjón.

Húsnæðisverð hefur hækkað mjög að undanförnu – og raunar hefur það hvergi hækkað eins mikið og á Íslandi á síðasta ári, samkvæmt skýrslu fasteignafélagsins Knight Frank, og er það í fyrsta sinn sem Ísland er efst á þeim lista frá því að mælingar hófust. Þá hækkaði fasteignaverð í fyrra mun hraðar en kaupmáttur launa og hafa hækkanirnar ekki verið meiri frá því í ársbyrjun 2006, að því er fram kemur í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×