Enski boltinn

Mourinho: Ætlar ekki að stilla upp Nicky Butt liði á móti Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicky Butt er hluti af 1992-súperárganginum hjá Manchester United.
Nicky Butt er hluti af 1992-súperárganginum hjá Manchester United. Vísir/Samett/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er með liðið sitt í keppni á öllum vígstöðum, í deildinni, í bikarnum og í Evrópudeildinni.

United á ennþá tvær opnar leiðir inn í Meistaradeildina eða með því annaðhvort að ná einu af fjórum efstu sætunum í ensku úrvalsdeildinni eða með því að vinna Evrópudeildina.

Næsti leikur liðsins er hinsvegar á móti Chelsea í enska bikarnum. Mourinho viðurkenndi eftir Evrópudeildarleik í gær að aðaláherslan væri lögð á deildina og Evrópudeildina með það markmið að komast í Meistaradeildina.

„Við viljum halda þessum tveimur dyrum opnum,“ sagði Jose Mourinho eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á móti Rostov í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gær. ESPN sagði frá.

„Við verðum að halda áfram að safna stigum í ensku úrvalsdeildinni til að halda þeim dyrum opnum og ef við komust áfram í Evrópudeildinni þá eru við komnir í átta liða úrslitin. Þær dyr væru því opnar líka,“ sagði Mourinho.

„Við erum komnir með einn bikar sem er alltaf gott og góð tilfinning fyrir alla. Nú þurfum við að berjast um eitt af fjórum efstu sætunum, reyna að vinna Rostov og svo ætlum við ekki að stilla upp Nicky Butt liði á mánudaginn,“ sagði Mourinho og er þá að vísa til þess að hvíla lykilmenn í bikarleiknum við Chelsea.

„Við getum ekki stillt upp Nicky Butt liði. Manchester United er of stórt. Manchester United er núverandi bikarmeistari.,“ sagði Jose Mourinho.

„Það er ekki Chelsea að kenna að þessi leikur var settur á mánudaginn. Við verðum að gera breytingar vegna leiksins á fimmtudaginn á eftir en við förum ekki á Stamford Bridge með Nicky Butt lið,“ sagði Mourinho.

Nicky Butt er hluti af 1992-árgangi Manchester United. Hann lék með United frá 1992 til 2004 alls 270 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×