Menning

Fjársjóður á mörkum tveggja heimsmynda

Magnús Guðmundsson skrifar
Viðar Hreinsson segir að það sé ekkert stórmál að púsla saman æviþræði en hugmyndirnar í kring geti reynst snúnari.
Viðar Hreinsson segir að það sé ekkert stórmál að púsla saman æviþræði en hugmyndirnar í kring geti reynst snúnari. Visir/Stefán
Upphafið að þessu verkefni má eiginlega rekja til þess þegar ég var að vinna við Íslenskan Söguatlas fyrsta bindi, svona 1989, þá nýkominn frá námi í bókmenntafræði í Kaupmannahöfn. Hafði reyndar skrifað lokaritgerð um fornbókmenntir, án þess að hafa sérstakan áhuga á íslenskum bókmenntum, en féll soldið fyrir Jóni og tímabilinu.“

Segir Viðar Hreinsson, höfundur bókarinnar Jón lærði og náttúrur náttúrunnar, sem hlaut í gær verðlaun Hagþenkis fyrir verkið. „Svo komst ég í rannsóknarverkefni upp úr 1990 sem Sverrir Tómasson stýrði á viðtökum Snorra Eddu og þá náði ég að sökkva mér aðeins betur ofan í kallinn. Hef alveg haft hann á heilanum síðan þangað til ég byrjaði á þessu verki á fullu um 2011 en hef verið fullkomlega einhverfur í honum síðan.“

Jón Guðmundsson lærði (1574-1658) var skáld, fræðimaður, læknir, náttúrufræðingur, listaskrifari, málari, tannsmiður, sjálflærður andófsmaður og fyrstur til að skrifa rit á íslensku um náttúru Íslands. Það er því margt sem kallaði á skoðun og rannsóknir á ævi og störfum Jóns og aðspurður um hvernig fari þá fyrir Viðari eftir að hann hafi loks sett lokapunktinn á verkið þá segir hann einfaldlega: „Þá bara dettur maður ofan í eitthvað annað.“ Og hlær við. „En ég er nú að reyna að venja mig af því að vinna svona stíft. Það er ekkert hollt til lengdar enda var þetta hörð glíma að ná tökum á því sem ég vildi, einkum hugmyndasögulega samhenginu, náttúruhugsuninni og því öllu. Svona æviþræði er ekkert stórmál að púsla saman en hugmyndirnar í kring eru snúnari og að koma þeim á eitthvert mannamál.“

Andófsmaður í sér

Viðar segir að honum finnist Jón vera einn almerkilegasti karakter Íslandssögunnar. „Hann var allt þetta sem upp hefur verið talið og meira til og sjálfmenntaður að auki, sennilega, þó ekki sé vitað nákvæmlega um uppvöxtinn. Þó svo hann virðist ekki hafa komist formlega í skóla hefur hann þó greinilega alist upp í einhvers konar nágrenni við bækur eða haft af þeim mikil kynni. Hann er alltaf mjög sjálfstæður í hugsun og verður nánast andófsmaður við það að andæfa Baskavígunum. Þá byrja ákveðnar ofsóknir á hendur honum og hann er svona einhvern veginn andófsmaður í sér, getur ekki lúffað. Getur ekki lagað sig að kröfum valdastéttarinnar í kringum hann. Þetta virðist vera sterkt í honum því það er í raun ekki hægt að finna neina rökrétta skýringu á því af hverju hann er að skrifa þetta rit um Baskavígin. Hann er ekki að koma sér í mjúkinn hjá neinum og gat vitað að þetta mundi koma honum í koll.

En svo tínir hann saman svo stórmerkileg fræði þegar hann kemst í frið á efri árum sem eru mögnuð heimild um hugarfar og hugsun. Auk þess yrkir hann ævikvæði og fleira persónulegt sem hleypir manni nær honum en nokkrum öðrum frá þessum tíma.“

Á mörkum heimsmynda

Náttúruvísindin eru stór hluti af höfundarverki Jóns lærða og Viðar segir að eitt verkið, það síðasta sem hann skrifaði, hafi verið fyrsta lýsingin á íslenskri náttúru sem er skrifuð á íslensku og hefur varðveist. „Þetta er makalaus ritsmíð að mörgu leyti. Þar blandar hann saman sínum eigin athugunum á fyrirbærum og hins vegar því sem í dag er kallað hindurvitni. Ég vil þó síður nota það orð því þetta var bara önnur heimsmynd, önnur sýn, síns tíma hugsun um náttúruna og þetta blandast saman hjá honum. Það sem ég er að reyna að sýna og útskýra er að þetta er fjölþættari og fjölbreyttari heimsmynd en menn ímynda sér. Það hafði allt einhverja merkingu í kosmísku samhengi.

Þegar fer að líða á endurreisnartímann gengur yfir mikil og skapandi gerjun áður en menn fara að þrengja soldið hugsunina með þeim mekaníska hugsunarhætti sem fylgir upplýsingunni. Mig langaði til þess að lyfta Jóni upp vegna þess að hann stendur svo nærri þessum mörkum á milli tveggja heimsmynda.

En erindið við samtímann er að núna er mikið að losna um hugsunina – heimsmyndina. Menn eru meira farnir að velta fyrir sér óreiðu, flækjum, ólínulegri hugsun og fjölbreyttari heimsmynd. Þess vegna er svo spennandi að stefna saman tvennum tímum. Þá er mikill fjársjóður að eiga svona karakter til þess að lýsa þetta upp.“

Umhverfishugvísindi

En hvert skyldi Viðar stefna í framhaldi af svo stóru verkefni? „Maður heldur bara áfram að tuða eitthvað,“ segir Viðar léttur. „En ég er í rannsóknaverkefni núna og hef aldrei verið betur settur. En þessi vinna mín með Jón var í raun hluti af því að ég var að endurhæfa mig fræðilega séð og setja mig inn í umhverfishugvísindi sem er mikill og skemmtilegur vaxtarbroddur í hugvísindum. Ég er með í hópi þar sem við erum að rannsaka Mývatn, svona þverfaglega á síðari öldum, sautján hundruð og fram á tuttugustu öld. Svo er ég líka að skoða fornbókmenntir, bókmenntasögu og ritaðar heimildir í svona umhverfisfræðilegu ljósi. Verð í því næstu árin en svo kemur í ljós hvernig mér tekst að flétta þetta saman, annars vegar með því að skrifa greinar í akademísk tímarit og hins vegar að skrifa eitthvað læsilegt fyrir almenning. Mér finnst mjög spennandi að flétta þessu saman, að reyna alltaf að miðla læsilega og vel. það er mikilvægt að fræðin lokist ekki inni í þessum akademísku kerfum og það er mikilvægt að þekkingin komist út til almennings á meðan fólk vill lesa.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.