Fótbolti

Wenger: Spiluðum mjög vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wenger var ekki sáttur með dómgæsluna.
Wenger var ekki sáttur með dómgæsluna. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, gagnrýndi gríska dómarann Tasos Sidiropoulos eftir 1-5 stórtap liðsins fyrir Bayern München í kvöld.

Bayern vann fyrri leikinn einnig 5-1 og einvígið því samanlagt 10-2.

„Mér fannst við gera vel en vorum afar óheppnir með sumar ákvarðanir dómarans. Það er erfitt að skilja þetta,“ sagði Wenger.

Arsenal gerði tilkall til vítaspyrnu í fyrri hálfleik og þá var Wenger afar ósáttur með vítið og rauða spjaldið sem Laurent Koscielny fékk í seinni hálfleik.

„Theo Walcott átti að fá víti, Lewandowski var rangstæður og eftir rauða spjaldið var þetta mjög erfitt fyrir okkur,“ sagði Wenger sem kvaðst stoltur af sínum mönnum.

„Við gáfum allt í leikinn og spiluðum mjög vel,“ sagði Frakkinn sem vildi ekkert tjá sig um mótmæli stuðningsmanna Arsenal fyrir leikinn í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×