Fótbolti

Bayern rústaði Arsenal aftur | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bayern München rúllaði yfir Arsenal, 1-5, í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Fyrri leikurinn á Allianz Arena fór einnig 5-1 og Bayern vann einvígið því 10-2 samanlagt. Þetta er sjöunda árið í röð sem Arsenal fellur úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Arsenal var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komst yfir á 20. mínútu þegar Theo Walcott þrumaði boltanum yfir höfuðið á Manuel Neuer í marki Bayern.

Arsenal-menn gerðu tilkall til vítaspyrnu í fyrri hálfleik en fengu ekki. Þeir voru afar ósáttir við störf gríska dómarakvintettsins í kvöld.

Staðan var 1-0 í hálfleik en vendipunkturinn leiksins kom þegar Laurent Koscielny braut á Robert Lewandowski innan teigs á 54. mínútu. Víti dæmt og eftir nokkra reikistefnu var Koscielny rekinn af velli.

Eftir jöfnunarmarkið og rauða spjaldið gafst Arsenal upp og Bayern skoraði fjögur mörk á skömmum tíma. Arturo Vidal skoraði tvívegis og Arjen Robben og Douglas Costa sitt markið hvor.

Lokatölur 1-5 og Bayern komið áfram í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×