Innlent

Talinn hafa látist eftir allmikið fall

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Íslendingurinn sem fannst látinn í hlíðum Table-fjalls við Höfðaborg í Suður-Afríku er talinn hafa látist eftir að hafa fallið úr allmikilli hæð.

Samkvæmt heimildum fréttatofu var maðurinn ásamt tveimur öðrum íslendingum á göngu á fjallinu en Table Mountain er um sexhundruð metra hátt og er vinsælt útivistarsvæði fyrir göngumenn og tekur ganga upp á topp fjallsins um tvær klukkustundir

„Einn göngumannanna sagði vinum sínum að hann vildi snúa við og halda niður af fjallinu. Þeir komu sér saman um að hittast þegar þeir kæmu af fjallinu,“ sagði Johan Marais, talsmaður Wilderness Search and Rescue í Höfðaborg, í samtali við fréttastofu.

Þegar þeir komu aftur niður var maðurinn ekki á þeim stað þar sem þeir ætluðu að hittast og óskuðu þeir því eftir aðstoð björgunarsveita.

„Um kl. 23 vorum við beðnir um að svipast um eftir honum og þá voru menn kallaðir út til leitar í Platteklip-gljúfri.Líkið fannst svo fyrir utan göngustíginn því hann hafði fallið niður af útsýnisstað. Fallið var allmikið,“ sagði Marais.

Talið er að maðurinn hafi látist samstundis. Fjallið er einn fjölfarnasti ferðamannastaður borgarinnar en nýlega var fólk varað við ferðum á fjallið vegna ítrekaðra ránstilrauna eftir að átta slík tilfelli komu upp í síðasta mánuði. Johan segir að í þessu tilfelli hafi verið um slys að ræða.

Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu en rannsókn á tildrögum slyssins er í höndnum lögreglunnar á staðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×