Körfubolti

Körfuboltakvöld: ÍR-ingar líta ekkert smá vel út

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Hann er bara búinn að vera besti leikmaður deildarinnar árið 2017 með 26 stig að meðaltali og var nálægt því að vera með þrefalda tvennu í þessum leik,“ sagði Fannar Ólafsson, einn sérfræðinga Körfuboltakvölds, um spilamennsku Matthíasar Orra Sigurðarsonar það sem af lifir árs.

Matthías sem er aðeins tuttugu og tveggja ára  var stórkostlegur í öruggum sigri ÍR gegn Þórsurum frá Akureyri en hann var með 28 stig, 12 stoðsendingar, níu fráköst og sjö fiskaðar villur í leiknum.

Því næst var farið í að skoða stemminguna í Hertz-hellinum en mikil stemming hefur verið á leikjum ÍR undanfarnar vikur.

„Þetta minnir mig á Miðjuna árið 2007 þegar við vorum ekkert endilega með besta liðið en þeir drógu okkur yfir línuna. Þetta gerir svakalega hluti fyrir liðið og getur reynst afar mikilvægt,“ sagði Fannar og Jón Halldór Eðvaldsson tók í sama streng.

„Sjá frændur þína þarna fremst sem eru að stjórna þessu, þeir eru ekkert að horfa á leikinn því þeir eru bara að stjórna sinfóníunni. Svo er ÍR að gera frábæra hluti, Borce kemur inn í þetta og er akkúrat maðurinn sem þeir þurftu og ÍR-ingar líta einfaldlega ekkert smá vel út.“

Umræðuna um leik ÍR og Þórsara ásamt stemminguna í Hertz-hellinum má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×