Körfubolti

Finnur Atli: Hefðum ekki unnið 10. flokkinn sem við Helena erum að þjálfa með þessari spilamennsku

Árni Jóhannsson skrifar
Finnur Atli og félagar voru í vandræðum í kvöld.
Finnur Atli og félagar voru í vandræðum í kvöld. vísir/eyþór
Þau voru ekki flókin svörin sem Finnur Atli Magnússon leikmaður Hauka gaf blaðamanni þegar hann var spurður að því hvort það væri hægt að útskýra tapið fyrir ÍR með einhverjum hætti.

„Þetta var bara lélegt frá A til Ö.“

Hann var því næst spurður að því hvort Haukar hafi ekki verið tilbúnir í slaginn fyrir leik eða hvort þeir hafi vanmetið getu ÍR-inga.

„Hvernig getum við sem lið í 10. sæti, vanmetið nokkuð lið í deildinni. Það vantar þá eitthvað í hausinn á okkur ef það er raunin eftir einhverja sex sigurleiki hjá okkur í deildinni,“ sagði Finnur.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja eftir þennan leik. Við spiluðum illa í fyrri hálfleik en vorum ekki nema fjórum stigum undir og allir voru að peppa alla í klefanum og það hljómar allt ógeðslega vel en þegar við komum út og erum slegnir og þeir tala aðeins skít við okkur þá verðum við eins og litlir krakkar. Þeir fengu að gera það sem þeir vildu og við hentum boltanum í burtu, menn sem halda því fram að þeir eigi heima í einhverjum landsliðshópum þeir voru óeðlilega lélegir í dag.

„Það var svo margt sem var að í dag, við hendum boltanum allt of oft í burtu en æfingarnar eru búnar að vera mjög flottar og erum að koma nýjum Kana inn í þetta. Hann gerði sitt besta og er það sem okkur vantar, smá kjöt inn í teiginn. Við vorum hinsvegar allir á hælunum eins og þeir segja.“

Finnur var að lokum spurður út í framhaldið í deildinni og hvað Haukar geta gert til að snúa dæminu við.

„Við verðum bara að spila betur, við getum það vel. Ég er ekki að segja að við séum betri en ÍR en við erum ekki 22 stigum verri en þeir, erum held ég ekki 20 og eitthvað stigum verri en nokkurt lið í deildinni en við verðum bara að skoða okkar mál og fara yfir hvað við getum gert betur og mannað okkur upp eins og einhver sagði. Með þessari spilamennsku hefðum við ekki unnið 10. flokkinn sem ég og Helena erum að þjálfa. Plain and simple eins og maður segir á ensku, ef ég má sletta,“ sagði Finnur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×