Erlent

Lögreglan telur stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa skipulagt morðið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kim Jong-nam var elsti sonur Kim Jong-il.
Kim Jong-nam var elsti sonur Kim Jong-il. Vísir/afp
Fjórir Norður-Kóreumenn flúðu frá Malasíu daginn sem fregnir bárust af því að hálfbróðir leiðtogans Kim Jong Un hafi verið myrtur í landinu. Telur malasíska lögreglan þetta vera til marks um að morðið hafi verið skipulagt af norður-kóreskum yfirvöldum. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Alls hafa fjórir verið handteknir í tengslum við málið en hálfbróðirinn, Kim Jong-nam, var myrtur á flugvelli fyrr í vikunni. Einn norður-kóreskur ríkisborgari er í haldi sem og tvær konur, önnur frá Indónesíu og hin frá Víetnam. Malasískur kærasti þeirrar síðarnefndu er jafnframt í haldi.

„Við höfum trú á því að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi staðið hér að baki í ljósi þess að 5 hinna grunuðu eru frá Norður-Kóreu," sagði talsmaður nágranna þeirra í suðri á blaðamannafundi í dag.

Sjá einnig: Uppreisnargjarni glaumgosinn Kim Jong-nam

Kollegi hans í Malasíu segir að unnið sé náið með Interpol svo hafa megi upp á þeim 4 sem flúðu landið skömmu eftir morðið. „Næsta mál á dagskrá er að ná þeim.“

Ekki er enn vitað nákvæmlega hvað varð Kim Jong-nam að bana en nú er beðið niðurstaðna úr eiturefnarannsókn. Lögreglan telur þó að eitthvað efni sem komið hafði verið fyrir í vasaklút sem önnur kvennanna sem er í haldi bar að munni hans hafi dregið Jong-nam til dauða.

Óstaðfestar fregnir herma að konan hafi sagt lögreglu að hún hafi talið sig vera að taka þátt í sjónvarpsþætti þar sem hún hafi átt að hrekkja manninn, að því er greint er frá á vef breska ríkisútvarpsins. Hún hafi jafnframt fengið greitt fyrir „hrekkinn“.

Kim Jong-nam var í litlu sambandi við fjölskyldu sína, sérstaklega eftir að faðir hans, Kim Jong-il, tók yngri hálfbróður hans fram yfir hann þegar hann útnefndi eftirmann sinn á valdastóli.


Tengdar fréttir

Uppreisnargjarni glaumgosinn Kim Jong-nam

Kim Jong-nam var vafalaust ætlað leiðtogahlutverki í Norður-Kóreu. Hann var hins vegar ráðinn af dögum af útsendurum Norður-Kóreustjórnar fyrr í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×