Körfubolti

Ágúst: Þegar við lítum til baka megum við vera stoltir af þessari frammistöðu

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Strákarnir hans Ágústs slógu þrjú lið úr Domino's deildinni út á leið sinni í Höllina.
Strákarnir hans Ágústs slógu þrjú lið úr Domino's deildinni út á leið sinni í Höllina. vísir/anton
„Fyrir leikinn hefði maður ekkert verið ósáttur með þessi úrslit. En við strákarnir erum keppnismenn og drullufúlir að hafa ekki náð að enda hinum megin. Við hefðum hæglega getað unnið þennan leik,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, eftir tapið nauma fyrir KR í undanúrslitum Maltbikars karla í dag.

„Þetta er ein sókn þarna undir lokin og við þurfum að brjóta og Jón [Arnór Stefánsson] setur vítin niður. Auðvitað erum við svekktir núna en þegar við lítum til baka megum við vera stoltir af þessari frammistöðu. Hún var frábær, sérstaklega varnarlega. Þeir skora 68 stig á okkur áður en við þurfum að brjóta. Þeir áttu í töluverðum vandræðum með að skora á okkur.

„Auðvitað var það rosalega stórt þegar ég tók leikhlé og hélt við ættum boltann. Það er mjög líklega rétt fyrst þeir kíktu á þetta á myndbandi. Þá setur Pavel [Ermonlinskij] þrist og það er leikurinn. Eftir það þurfum við að elta. Þetta var mjög gerlegt áður en það gerðist,“ sagði Ágúst ennfremur.

Valssóknin hikstaði illa á versta tíma, um miðjan 4. leikhluta þar sem liðið skoraði ekki í næstum sex mínútur.

„Það er bara leikurinn. Þar kemur reynslan inn. KR-liðið er vant að vera hérna á meðan það lá við að mínir menn rötuðu ekki hingað. En þetta fer í reynslubankann hjá okkur. Við verðum svekktir með þetta í kvöld en þegar við lítum til baka megum við vera stoltir,“ sagði Ágúst.

En sýndi frammistaðan í dag ekki að Valur á heima í deild þeirra bestu?

„Jú, ég held það. Miðað við leikina sem við höfum spilað í vetur höfum við sýnt að við eigum heima í efstu deild,“ sagði Ágúst að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×