Innlent

Styrkir tengingu mannanna við Birnu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Grímur Grímsson.
Grímur Grímsson. vísir/anton brink
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, á ekki von á því að mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um aðild að málinu verði yfirheyrðir í dag.

Lögreglan hefur fengið staðfest að lífsýni sem fannst í rauðu Kia Rio-bifreiðinni sem haldlögð var á þriðjudag sé úr Birnu. Lögreglan telur það staðfesta að hún hafi verið í bílnum en annar mannanna sem situr í haldi var sá sem tók bílinn á leigu.

Mennirnir voru í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald. Lögreglan fór fram á fjögurra vikna varðhald og kærði úrskurðinn því til Hæstaréttar sem enn á eftir að kveða upp sinn dóm. Grímur telur að gögnin varðandi lífsýnið verði vafalaust lögð fram fyrir Hæstarétti enda má ætla að þau styrki mál lögreglunnar.

Ýmis konar fatnaður sem fannst í gær verið tekinn til rannsóknar

Aðspurður um hvaða áhrif þetta hefur á rannsóknina segir Grímur:

„Þarna erum við bara komin á þann stað að vita það að hún var í bílnum og þá er tengingin við þessa menn vissari. Þá er það þannig að þeir sem voru með bílinn og bíllinn er með lífsýninu þá eru yfirgnæfandi líkur að það hafi verið tenging á milli þessa fólks.“

Grímur vill hvorki svara því hvort að mennirnir hafi veitt lögreglu upplýsingar í yfirheyrslum sem gagnist við rannsóknina né hvort að framburður þeirra beri þess vitni að þeir hafi samræmt frásagnir sínar. Hann bendir þó á að það sé alltaf svo í yfirheyrslum komi einhverjar upplýsingar fram.

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir alla helgina af Birnu en leitað er á stóru svæði á suðvesturhorni landsins, meðal annars á öllum Reykjanesskaganum og Hellisheiði. Grímur segir að ýmislegt hafi fundist við leitina sem lögreglan hefur tekið til rannsóknar.

„Það var mjög mikið af munum sem menn vildu skoða með tilliti til þess hvort það geti verið að það tengist málinu, þar á meðal ýmis konar fatnaður. Það fundust mjög margir hlutir, þetta var mjög nákvæm leit og gekk að því leytinu til mjög vel,“ segir Grímur.

Björgunarsveitarmenn leita áfram að Birnu í dag og vísbendingum um það hvar hana geti verið að finna.

Uppfært klukkan 15:24: Grímur staðfestir í samtali við RÚV að lífsýnið úr Birnu sé blóð.


Tengdar fréttir

Lögreglan engu nær um ferðir rauða bílsins á laugardagsmorgun

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, segir lögregluna engu nær um ferðir rauða Kia Rio-bílsins á laugardagsmorgun milli klukkan 7 og 11:30. Á föstudag óskaði lögregla eftir myndefni úr bílum sem voru á ferð á þessum tíma á stóru svæði á suðvesturhorninu.

Lífsýni úr bílnum er úr Birnu

Lífsýni úr rauða Kia Rio-bílnum voru send utan til rannsóknar og liggur nú fyrir niðurstaða þeirrar rannsóknar þess efnis að lífsýnið er úr Birnu Brjánsdóttur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×