Menning

Man best eftir fimmtugsafmæli eiginkonunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Valgeir Guðjónsson hélt tónleika í Hörpu á sextugsafmælinu.
Valgeir Guðjónsson hélt tónleika í Hörpu á sextugsafmælinu. Vísir/Gva
Einn ástsælasti tónlistarmaður landsins, stuðmaðurinn Valgeir Guðjónsson, er fæddur 23. janúar 1952 og er því 65 ára í dag. Hann ætlar ekki að halda upp á daginn. „Ég mun taka við árnaðaróskum á Facebook eins og gjarnan er gert núna. Það er þar sem maður fær að vita að það eru ekki allir búnir að gleyma manni.“

Hann segir að sextugsafmælið sé honum enn ferskt í minni. Eftirminnilegasta afmælið hafi þó ekki verið hans afmæli, heldur fimmtugsafmæli konunnar hans, en þau eru jafnaldrar. „Þá giftum við okkur, við Ásta Kristrún, eftir 28 ára tilhugalíf. Og við fórum alla leið upp í Borgarfjörð til þess,“ segir Valgeir. Þetta hafi verið ágæt veisla sem hafi komið mörgum að óvörum.

„Við vorum gefin saman á ekki ómerkari stað en Borg á Mýrum,“ segir Valgeir og minnir á að sjálfur Egill Skallagrímsson og kynstofn hans hafi gert þann stað sögufrægan. „Síðan var það nú þannig að prófasturinn á Borg á Mýrum var mikill vinur okkar frá gömlu og nýju. Og hann hafði einmitt verið með okkur þegar við kynntumst fyrir alvöru, þegar hann og við og lítill hópur fólks gekk Leggjabrjót,“ segir Valgeir. Þetta var árið 1975, en Valgeir og Ásta Kristrún hittust þó fyrst rétt eftir að Stuðmenn höfðu gefið út Sumar á Sýrlandi.

Valgeir segist hafa nóg fyrir stafni í tónlistinni um þessar mundir. „Og er að undirbúa verkefni sem ég segi frá þegar að því kemur,“ segir hann. Það sé mikil vinna að baki þessu verkefni og þá komi sér vel að búa ekki í erli höfuðborgarinnar. „Heldur að vera á því sem ég kalla á Flóarívíerunni,“ segir Valgeir en hann hefur búið á Eyrarbakka í meira en tvö ár. „Þar er næði til ýmislegs sem myndi fara forgörðum í hamaganginum. Ég mæli með því við alla að leita á rólegri mið. Það gerir okkur gott,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.