Innlent

Björgunarsveitirnar ljúka leit: „Lítum svo á að okkar þætti sé lokið“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Leit er lokið í kvöld að vísbendingum í máli Birnu Brjánsdóttur.
Leit er lokið í kvöld að vísbendingum í máli Birnu Brjánsdóttur. vísir/vilhelm
Björgunarsveitir hafa lokið störfum við leit að Birnu Brjánsdóttur. Þorsteinn G. Gunnarsson segir í samtali við Vísi að um 90 verkefni hafi verið kláruð í dag og að björgunarfólk sé nú á leið til síns heima.

„Þessu stóra verkefni er lokið og við förum út og sinnum verkefnum ef um það er beðið, en að öðru leyti lítum við svo á að okkar þætti sé lokið,“ segir Þorsteinn en yfir 300 björgunarsveitarmenn tóku þátt í að leita að vísbendingum í tengslum við málið í kvöld, á svæði sem nær frá Grindavík að Eyrarbakka.

Sjá einnig: Líkfundurinn engin tilviljun: Sjö þúsund kílómetra ganga að baki hjá björgunarsveitunum

Aðgerðir Landsbjargar um helgina eru þær umfangsmestu sem ráðist hefur verið í en alls komu um 775 sjálfboðaliðar að leitinni að Birnu, þar af voru 685 leitarmenn, fjörutíu aðgerðastjórnendur og fimmtíu frá slysavarnardeildum. Notast var við ellefu hunda, dróna, fjórhjól og nánast allan bílaflota björgunarsveitanna. 

Lagt var upp með að klára yfir tvö þúsund verkefni um helgina og höfðu björgunarsveitarmenn lokið yfir þúsund verkefnum á laugardag og kom fólk af öllum aldri, hvaðanæva af landinu að leitarstörfum. Landsbjörg hefur tekið þátt í leitinni allt frá því 16 janúar, fyrir rétt tæpri viku síðan.

Sjá:  Fólkið sem leitaði í gær: „Þetta er þverskurður þjóðarinnar“

Tveir menn sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um aðild að hvarfi Birnu. Þeir neita sök. 

Hér að neðan má sjá þegar við litum við í húsakynnum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar í gær og tókum leitarfólk tali ásamt því að skyggnast um á vettvangi leitarinnar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×