Menning

Skyggnast inn í heim listamanna

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Vefritið Hús&Hillbilly fór í loftið 11. janúar, og stefnt er á árlegt tímarit í framhaldinu.
Vefritið Hús&Hillbilly fór í loftið 11. janúar, og stefnt er á árlegt tímarit í framhaldinu.
Systurnar Ragga og Magga Weisshappel halda úti vefritinu Hús&Hillbilly. Í vefritinu eru meðal annars heimsóknir á vinnustofur íslenskra myndlistarmanna auk þess sem rætt er við listamenn.

„Markhópurinn er allt fólk sem nýtur myndlistar, og menningar ef út í það er farið. Líka forvitið fólk, sem finnst gaman að gægjast inn í heim myndlistarmanna, heimili og vinnustofur. Kannski mun hópurinn stækka, en það eru til dæmis margir sem eru á móti listamannalaunum sem geta skoðað og séð að myndlistin er ekkert grín og mjög mikilvæg fyrir samfélagið,“ segja systurnar Ragga Weisshappel og Magga Weisshappel, spurðar út í vefritið husoghillbilly.com, sem fór í loftið 11. janúar.

Hús&Hillbilly er vefrit þar sem meðal annars eru heimsóknir á vinnustofur íslenskra myndlistarmanna, innsýn í heim íslenskra myndlistarmanna í útlöndum, auk þess sem rætt er við myndlistarmenn í alls konar verkefnum með það að leiðarljósi að sýna fram á mikilvægi myndlistarmanna í samfélaginu. „Vefritið er aðallega hugsað sem örlítil viðbót í arkífsafn íslenskrar myndlistar. Það er mjög mikilvægt að svona viðtöl séu til,“ segja þær systur.

Stelpurnar hafa fengið mjög fín viðbrögð við síðunni. „Við höfum fengið fullt af fallegum skilaboðum og erum ánægðar með það.“ Hvernig kviknaði hugmyndin? „Hún kviknaði út frá því að stefnulausar systur sátu yfir bjór að ræða lífið og tilveruna, saman komum við með hugmyndina, okkur fannst þetta sárvanta og vorum sammála um að myndlistina vantaði svona vettvang,“ útskýra systurnar og bæta við að langflestar hugmyndir í heiminum komi með bjórnum og séu síðan fínpússaðar næsta dag.

Spurðar að því hvort mikið sé fjallað um innanhússhönnun á vefnum eða einungis myndlist segja stelpurnar að Hillbilly sé mest fyrir myndlist, þó að innanhússhönnun geti verið falleg.

„Myndlistarmenn eru oftar en ekki fagurkerar. Þess vegna eru plássin sem við förum inn í alltaf mjög falleg og mikið af alls konar dóti. Það er stór bónus. Það er samt sem áður ein regla, og hún er sú að það er bannað að taka til áður en Hillbilly kemur í heimsókn.“

Þó einungis séu nokkrir dagar frá því vefsíðan fór í loftið, eru stelpurnar samt sem áður komnar með stórar hugmyndir fyrir næstu mánuði. „Við erum að spá í að vinna sleitulaust til 11.11 ’17 og fara þá í að prenta eitt stórt tímarit – samansafn fyrir hvert ár. En þetta eru kannski villtir draumar en samt sem áður stefnan,“ segja þær að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.