Handbolti

Frábær frumraun Arnars Freys: Nýr Rússajeppi sem verður á línunni næstu fimmtán árin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Freyr Arnarssson fagnar með Björgvin Páli Gústavssyni en þeir voru bestu menn Íslands í gær.
Arnar Freyr Arnarssson fagnar með Björgvin Páli Gústavssyni en þeir voru bestu menn Íslands í gær. vísir/afp
Arnar Freyr Arnarson, tvítugur línumaður Kristianstad í Svíþjóð og íslenska landsliðsins í handbolta, stal senunni í fyrsta leik strákanna okkar á HM 2017 í Frakklandi. Hann var ljósið í myrkrinu ásamt markverðinum Björgvin Páli Gústavssyni í 27-21 tapi í Metz.

Sjá einnig:Arnar Freyr benti á föður sinn þegar hann skoraði: „Hann setti kröfur á mig“

Þessi tröllvaxni og ljóshærði línumaður skoraði fjögur mörk úr fimm skotum en fyrsta mark hans á stórmóti fyrir landsliðið minnti óneitanlega á takta Róberts Gunnarsson sem nýverið hætti með landsliðinu. Arnar fékk boltann inn á línuna og vippaði honum snyrtilega yfir höfuðið á Gonzalo Peres de Vargas, markverði Spánverja sem er einn sá besti í heimi.

Arnar Freyr skoraði í heildina fjögur mörk úr fimm skotum auk þess sem hann fiskaði eitt víti og tók eitt frákast. Þá átti hann tvær löglegar stöðvanir í vörninni og sýndi drekunum í liði Spánar enga miskunn í baráttunni inn á línunni.

Einar Andri Einarsson, þjálfari toppliðs Aftureldingar í Olís-deild karla og sérfræðingur íþróttadeildar 365 um HM 2017, var heldur betur ánægður með frumraun línumannsins.

„Arnar Freyr sýndi að hann verður þarna á línunni næstu fimmtán árin. Þetta var geggjuð byrjun á landsliðsferli. Það verður erfitt að finna betri fyrsta leik á heimsmeistaramóti,“ sagði Einar Andri í uppgjöri sínu á Vísi eftir leikinn í gær.

Framarinn, sem gekk í raðir Kristianstad síðasta sumar og er að spila sína fyrstu leiktíð sem atvinnumaður sama vetur og hann þreytir frumraun sína á stórmóti, var einn þriggja leikmanna sem fékk fjóra í einkunnagjöf Fréttablaðsins og Vísis eftir leik í gær. Þar er mest hægt að fá sex, en Arnar var hæstur ásamt Björgvin Páli og fyrirliðanum Guðjóni Val Sigurðssyni.

„Fyrir utan Björgvin Pál var Arnar Freyr okkar besti maður. Var dálítið flatur varnarlega. Lék frábærlega á línunni og við erum að eignast nýjan Rússajeppa sem okkur hefur vantað lengi. Frábær frammistaða og frábær byrjun,“ segir í umsögn um Arnar Frey í einkunnagjöfinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×