Handbolti

Ólympíumeistararnir fara vel af stað | Króatar í basli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson gefur bendingar á hliðarlínunni.
Guðmundur Guðmundsson gefur bendingar á hliðarlínunni. vísir/epa
Danir fara vel af stað á HM í Frakklandi en í kvöld unnu þeir öruggan 11 marka sigur, 33-22, á Argentínu.

Argentínumenn héldu í við Dani framan af og eftir 15 mínútna leik var staðan 9-8, danska liðinu í vil. Þá skildu hins vegar leiðir og Ólympíumeistararnir kláruðu fyrri hálfleikinn með 8-2 kafla og leiddu 17-11 í hálfleik.

Í seinni hálfleik jókst munurinn bara og á endanum munaði 11 mörkum á liðunum, 33-22.

Mikkel Hansen skoraði sex mörk fyrir Dani og Lasse Svan Hansen fimm. Alls komust 11 leikmenn Danmerkur á blað í leiknum í kvöld. Þá var Niklas Landin frábær í markinu og varði 15 skot (48%).

René Toft Hansen lék ekki með danska liðinu í kvöld og óvíst er hversu mikið hann verður með á HM, eins og lesa má um hér.

Federico Fernández skoraði sex mörk fyrir Argentínu.

Í hinum leik kvöldsins unnu Króatar aðeins fimm marka sigur, 28-23, á Sádí-Arabíu. Þessi lið eru í D-riðli líkt og Danir.

Luka Cindric skoraði sex mörk fyrir Króata sem voru lengi að hrista Sádana af sér. Til marks um það var staðan í hálfleik 12-11, Króatíu í vil.

Króatar reyndust hins vegar sterkari aðilinn í seinni hálfleik og tryggðu sér fimm marka sigur, 28-23.

Sádí-Arabía gerði Króatíu erfitt fyrir.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×