Handbolti

HBStatz: Markvarslan hrynur í seinni hálfleik hjá íslensku markvörðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Vísir/Getty
Markverðir íslenska handboltalandsliðsins eru sem fyrr í mikilvægum hlutverkum og það er fróðlegt að skoða betur markvörsluna í fyrstu þremur leikjum Íslands á HM í handbolta.

HBStatz heldur vel utan um alla tölfræði íslenska liðsins á HM í Frakklandi og hefur nú gert athyglisverðan samanburð á markvörslu Íslands eftir hálfleikjum á mótinu til þessa.

Íslensku markverðirnir hafa verið mjög góðir í fyrri hálfleikjum leikjanna þar sem þeir hafa varið sjö skot að meðaltali og alls 38 prósent allra skot sem hafa komið á þá.

Markvarslan hrynur hinsvegar í seinni hálfleiknum þar sem markverðirnir hafa aðeins varið fjögur skot að meðaltali og 22,6 prósent skota sem hafa komið á þá.

Markvarslan fellur því um fimmtán prósent milli hálfleikja og því næstum því tvöfalt meiri í fyrri hálfleik en þeim síðari.

Það munar mest um markvörsluna úr hornum og úr vítum. Í fyrri hálfleikjunum hafa íslensku markverðirnir varið 50 prósent skota úr hornum og 74 prósent vítanna. Í þeim seinni hafa þeir aðeins náð að verja sautján prósent skot úr hornum og fjórtán prósent vítanna.

Munurinn var örugglega enn meiri eftir tvo fyrstu leikina því Aron Rafn Eðvarðsson átti flotta innkomu í seinni hálfleiknum í jafnteflisleiknum á móti Túnis.

Það má sjá samanburð HBStatz á markvörslu Íslands á HM 2017 hér fyrir neðan.

Ísland spilar sinn fjórða leik á HM þegar liðið mætir Angóla klukkan 19.45 í kvöld. Það búast allir við að íslensku strákarnir vinni þar sinn fyrsta sigur á heimsmeistaramótinu í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×