Körfubolti

Hrafn: Mér þykir þetta slakt hjá Útlendingastofnun

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, hrósaði liðsmönnum sínum eftir sigurinn.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, hrósaði liðsmönnum sínum eftir sigurinn. vísir/ernir
„Þetta var mjög sveiflukennt, við vorum flottir sóknarlega lengst af en við vorum full flatir varnarlega,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, aðspurður hvernig honum þætti spilamennskan í kvöld.

„Það er kannski skrýtið að segja það en mér fannst staðan geta hafa verið betri en það er erfitt að halda út gegn jafn góðu sóknarliði heilan leik.“

Sóknarleikur Stjörnunnar gekk eins og smurð vél lengst af í fyrri hálfleik.

„Við reyndum að fara hratt upp og okkur er að takast betur og betur að taka réttar ákvarðanir. Ég er nokkuð sáttur með það en maður þarf að eiga fleiri vopn í búrinu og að geta breytt um leikstíl.“

Sjá einnig:Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór Ak. 92-77 | Garðbæingar í toppsætið

Hrafn sagði villuleysi Þórsara hafa haft áhrif á boltameðferð Stjörnunnar í seinni hálfleik en á ellefu mínútna kafla töpuðust tólf boltar, þar af þrír á einni mínútu.

„Þeir fá þónokkrar villur snemma leiks en ekki nema 2-3 villur í seinni hálfleik. Það getur verið erfitt að halda tanki allan leikinn þegar þú færð ekki færi til að fara á vítalínuna,“ sagði Hrafn.

Anthony Odunsi, nýjasti liðsmaður Stjörnunnar, var í borgarlegum klæðum í kvöld en hann fékk ekki dvalar- og atvinnuleyfi í tæka tíð.

„Þetta var vissulega óþægilegt í undirbúningnum, við erum búnir að vinna í því að koma honum inn í kerfin á síðustu æfingum og æfingar sem fara í það eru aldrei góðar. Það efldi svo bara strákanna að hann fengi ekki að taka þátt,“  sagði Hrafn og bætti við:

„Ég fer ekkert í felur með það, mér finnst þetta slakt hjá Útlendingastofnun að hafa ekki getað tekið þetta mál fyrir. Þau mættu vera aðeins hraðari að grípa í málefni eins og leyfi erlendra íþróttamanna til að leika á Íslandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×