Körfubolti

Skýrsla Kidda Gun: Njarðvíkingar fórnarlömb vofunnar

Kristinn Geir Friðriksson í Sláturhúsinu í Keflavík skrifar
Daníel Guðni Guðmundsson og lærisveinar hans töpuðu fyrsta leik nýs árs og eru enn í fallsæti.
Daníel Guðni Guðmundsson og lærisveinar hans töpuðu fyrsta leik nýs árs og eru enn í fallsæti. vísir/ernir
Stærstu „Derby-leikir“ körfuboltans á Íslandi eru án efa leikir Keflavíkur og Njarðvíkur; áður fyrr hefðbundinn grannaslagur en í seinni tíð barátta um montréttinn í Reykjanesbæ.

Að spila þessa leiki er áberandi öðruvísu en allir aðrir leikir eða grannaslagir í deildinni og aðeins hægt að líkja við bikarleiki eða leiki í úrslitakeppni – þó svo að tilfinningin sé vissulega ögn frábrugðin. Í þessum leikjum hefur aldrei verið krafa um áferðarfallegan körfubolta (þó svo að hann hafi oftar en ekki látið sjá sig í þessum rimmum) eða „að gera þitt besta!“

Nei nei, ungmennafélagsandinn hefur aldrei átt við hér. Þetta eru aukaatriði sem skipta engan Njarð-eða Keflvíking með lágmarksstolt máli. Þessir leikir snúast um að vinna, vinna og vinna! Með hvaða ráðum sem er! Leiðarljósin að þessu markmiði – montrétturinn sem þessu fylgir – eru barátta, sigurvilji og hugrekki.

Áhorfendur fengu þetta allt í gærkveldi en þurftu samt að sætta sig að horfa uppá liðið sitt spila líklega lélegasta körfubolta í þessum grannaslag síðan Brad Miley og Bill Kotterman voru á mála liðanna.

Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar byrja nýtt ár á sigri.vísir/ernir
(Ó)gangur leiks

Keflvíkingar voru betra liðið frá byrjun; vörnin var mjög góð og náði að algjörlega að loka á lykilmenn liðsins. Logi Gunnarsson, Jóhann Ólafsson og Björn Kristjánsson komust lítið áleiðis og liðsheildin var döpur á að líta sökum þessa.

Jeremy Atkinson átti sæmilegan fyrri hálfleik hinsvegar en aldrei drífandi eða afgerandi til að smita liðið af veiru sem gæti hugsanlega spilað liðskörfubolta. Varnarleikur og barátta Njarðvíkurmanna var það eina sem bar vott þess að tengjast íþróttinni að einhverju leyti, en fjarskyldir ættingjar þó.

Þetta hnoð ásamt nokkrum vel völdum körfum undir lok hálfleiksins gerði það að verkum að gestirnir úr Njarðvík gátu gengið til búningsklefa með höfuðið í sextíu gráðu halla að brjósti. Það er aðeins ein ástæða fyrir að Keflvíkingar voru ekki búnir að gera út um leikinn strax í þessum fyrri hálfleik; þeir voru næstum jafn lélegir og mótherjarnir.

Leiðinlegasta fjórðung þessara liða sem ég man eftir lauk því 41-34 og nokkrir áhorfendur fyrir löngu byrjaðir að tjékka á Tinder-prófílnum áður en hálfleiksflautan gall. Þeir sem nenntu að líta upp frá símanum sínum sáu líklega þegar Keflvíkingar náðu hægt og bítandi fimmtán stiga forskoti þegar þriðji hluti var rétt rúmlega hálfnaður.

Þetta gerðist hinsvegar án nokkurra tilþrifa og ég þori að fullyrða að enginn, sem ekki var á Tinder á þessum kafla, hefði þorað að spá leiknum öðru en áframhaldandi leiðindum.

Þrátt fyrir að laga stöðuna fyrir lokafjórðung, 63-55, var það gert með þeim hætti að áhorfendur tóku varla undir með Njarðvík; ládeyðan var slík og aldrei neitt í kortunum að gestirnir ættu útgönguleið úr þeim ógöngum sem liðið kom sér í trekk í trekk.

Gamli maðurinn á ekki að þurfa að bera liðið á bakinu.vísir/ernir
Logi Gunnarsson! (Hvar voru félagar þínir?)

Logi er góður drengur og ég er handviss um að hann hafi skammast sín fyrir spilamennsku liðs síns eftir þrjá hluta því hann frumsýndi nýja útgáfu af eldra módeli í þeim fjórða; Logi 3.0!

Eftir sjö mínútur af fjórða hluta hafði kappinn skorað tólf af fjórtán stigum liðsins og breytt stöðunni úr 63-55 í 72-71. Þarna héldu margir áhorfendur Njarðvíkur að liðið væri komið í kjörstöðu til að ræna sigrinum af grunlausum Keflvíkingum (og svo því sé haldið til haga, þá voru heimamenn ekki aðeins grunlausir heldur á barmi meðvitundarleysis á þessum sjö mínútna kafla).

Þessir sömu áhorfendur hefðu hinsvegar rétt eins getað smellt sér í búning og spilað í staðinn fyrir félaga Loga á þessum kafla því leikmenn liðsins voru ekkert annað en meðvirkir áhorfendur sjálfir í sínum aðgerðum. Þeir þorðu ekki að líta á körfuna, keyra á körfuna eða hugsa um að skora í körfuna sjálfir, heldur reyndu þeir eftir fremsta megni að koma boltanum á örþreyttan manninn sem kom liðinu nánast einn síns liðs í þá aðstöðu sem uppi var, þ.e. kjöraðstöðu til að vinna leikinn. Logi gat þetta ekki allt sjálfur og hann fékk ekki þá hjálp sem hann átti skilið á þessum kafla, einfalt!

Sóknarleikur liðsins hrundi eins og spilaborg síðustu þrjár mínútur leiksins vegna þessa og voru sumar ákvarðanir félaga hans með öllu óskiljanlegar í tilraunum þeirra til að koma boltanum á Loga. Menn slepptu m.a.s. opnum leiðum upp að körfunni í óáreitt sniðskot til þess að senda á hann með mann í andlitinu! Allt miðaði að því að finna Logann, sem var því miður á síðasta súrefnisdrætti.

Keflvíkingar þurftu ekkert að hafa fyrir hlutunum á þessum lokakafla og náðu því að landa auðveldum sigri, þökk sé getuleysi liðsheildar Njarðvíkur.

Með vofu frá Útlendingastofu

Njarðvíkingar voru verulega lélegir í gær en við hverju er að búast hjá liði sem fær til sín nýjan erlendan leikmann, æfir með honum sérstaklega fyrir leik sem þennan en á síðustu stundu fá liðsmenn að vita að þeirra besti maður fær ekki að leika með?

Frammistaða liðsins í þeim leik verður að vera metin með þetta í forgrunni. Myron Dempsey sat á bekknum í borgarlegum klæðum, aðeins vofan af því sem hann hefði annars verið inni á vellinum og allir leikmenn og þjálfarar búnir að reikna með.  Njarðvíkingar voru fórnarlömb í gær og þó liðið hefði vel getað sýnt á sér mun betri hliðar vil ég meina að þessi fjarvera Dempsey sé stærsti hluti frammistöðu liðsins, þó svo að margir leikmenn liðsins hljóti að vera mér ósammála.

Ég er sannfærður að um að liðið muni verða mun betra með hann innanborðs en samt verð ég að minnast á að eitthvað meira verður að breytast, og þá sérstaklega sóknarleikur liðsins. Í þessum grannaslag sýndi liðið nýjar víddir af óstarfhæfri sóknarliðsheild og Dempsey mun ekki laga slíkt einn og óstuddur, það þarf eitthvað meira til ef ekki á illa að fara fyrir þessu sögufræga liði.

Þeirra ljós í því myrkri sem liðsmenn nú fálmast um í er að Haukar töpuðu fyrir Skallagrími!? Staða sem ég myndi ekki óska mínum versta óvini.

Myron Dempsey fékk ekki leyfi til að spila í gær og Njarðvík saknaði hans.vísir/valli
Er „Attaboy“ ekki bara nóg?

Keflvíkingar getað klappað sér á bakið fyrir að klára leikinn en aðeins eitt klapp nægir, mögulega með frasanum „Attaboy“ þó mér þyki það næstum yfirdrifið.

Orðtakið fá þeir fyrir að klára en klappið fyrir að vera mun betra liðið í 33 mínútur. Einbeitingarleysið sem liðið sýndi oft og iðulega í leiknum er klárlega áhyggjuefni; eina stundina var sóknarleikurinn markviss og varnarleikurinn þéttur og ágengur, hina stundina voru menn að bora í nefið án þess að finna græna treyju til að fela afraksturinn í.

Sigurinn er mikilvægastur í þessu samhengi og því óþarfi að hafa lengri orð um frammistöðuna. Í næstu leikjum þarf liðið að sýna þann stöðugleika sem þarf til þess að berjast um heimavallarréttinn eins og Hörður Axel Vilhjálmsson lofaði undirrituðum fyrir nokkrum vikum. Varnarleikurinn var oft mjög góður, sóknin hinsvegar oft ryðguð og illa áttuð.

Liðsmenn áttu skilið að vinna leikinn í gær og sýndu að það býr enn eitthvað í liðinu. Leikmenn og dómarar Logi gerði það að verkum að Njarðvíkingar áttu möguleika á sigri, aðrir í liðinu komu svo í raun í veg fyrir að það gæti gerst.

Atkinson var heilt yfir ágætur og skilaði sínu en aðrir lykilmenn voru langt frá sínu besta. Það eru forréttindi að fá að spila þessa leiki og leikmenn verða einfaldlega að mæta betur gíraðir. Stevens skilaði flottum tölum eins og alltaf en virkaði ekki alveg með sjálfum sér, sem speglaðist í mörgum töpuðum boltum. Hörður Axel hafði hægt um sig sóknarlega en spilaði fína vörn lengst af.

Magnús Már Traustason var besti maður vallarins, ætti að heita Trausti Trausti Traustason og alls ekki of seint fyrir hann að breyta því. Liðsheildin átti nokkra mjög góða spretti en bar samt mörg veikleikamerki í barmi sér sem þarf að lagfæra.

Leikurinn var illa leikinn af báðum liðum. Þetta smitaðist í dómara leiksins sem áttu oft á tíðum undarleg tilþrif og virtust ekki alveg hafa leikinn í hendi sér. Þeir voru hinsvegar aldrei örlagavaldar er klárlega fyrirgefið því allir þeirra vankantar bitnuðu jafnt á liðum, ritaraborði og áhorfendum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×