Íslenski boltinn

Halldór Orri: Bað umboðsmanninn minn um að hafa samband við FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Halldór Orri með Heimi Guðjónssyni, þjálfara, og Jóni Rúnari Halldórssyni, formanni knattspyrnudeildar FH.
Halldór Orri með Heimi Guðjónssyni, þjálfara, og Jóni Rúnari Halldórssyni, formanni knattspyrnudeildar FH. Vísir/Vilhelm
Halldór Orri Björnsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Íslandsmeistara FH en þessi tíðindi komu eins og þruma úr heiðskíru lofti, enda var Halldór Orri samningsbundinn Stjörnunni til loka árs 2017.

Í gær höfðu hins vegar forráðamenn Stjörnunnar samband við Halldór Orra. „Þeir sögðu að það þyrfti að endurskoða samninginn minn. Við reyndumst að komast að samkomulagi en það gekk ekki. Það var fullreynt,“ sagði Halldór Orri við Tómas Þór Þórðarson eftir blaðamannafund í Kaplakrika í dag.

„Þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar. Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að vera kominn í þennan stóra klúbb sem FH er,“ sagði hann enn fremur.

Sjá einnig: Halldór Orri genginn í raðir FH

Þegar ljóst var að Halldór Orri væri á leið frá Stjörnunni vildi hann fyrst kanna hvort að FH hefði áhuga á honum.

„Ég bað umboðsmanninn minn að láta FH vita að ég væri laus. Það voru engin önnur félög sem vissu af þessu og voru í myndinni. FH sýndi áhuga og kláraði þetta á sólarhring. Ég kann að meta það,“ sagði hann.

„Mig langaði einfaldlega í FH. Það var eina liðið sem ég vildi athuga hvort hefði áhuga á mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×