Íslenski boltinn

Halldór Orri genginn í raðir FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Halldór Orri Björnsson fór yfir í næsta bæjarfélag.
Halldór Orri Björnsson fór yfir í næsta bæjarfélag. vísir/vilhelm
Stjörnumaðurinn Halldór Orri Björnsson er genginn í raðir Íslandsmeistara FH í Pepsi-deild karla í fótbolta en framherjinn öflugi skrifaði undir tveggja ára samning við Hafnafjarðarliðið í Kaplakrika í dag.

Þetta eru ein stærstu félagaskipti vetrarins en Halldór Orri hefur verið ein af skærustu stjörnum deildarinnar síðan Garðabæjarliðið kom upp í efstu deild árið 2009.

Halldór Orri skoraði 47 mörk í 106 leikjum fyrir Stjörnuna í Pepsi-deildinni frá 2009-2013 eða 0,44 mörk í leik þrátt fyrir að spila á kantinum. Hann missti af Íslandsmeistaratímabili Stjörnunnar árið 2014 þar sem hann var í atvinnumennsku, en hann kom aftur fyrir sumarið 2015 og hefur skorað níu mörk í 40 leikjum undanfarin tvö tímabil.

Halldór Orri spilaði alla 22 leikina í Pepsi-deildina í sumar, þar af 19 sem byrjunarliðsmaður. Hann skoraði fimm mörk og lagði upp önnur fimm er Stjarnan hafnaði í öðru sæti deildarinnar og nældi sér í Evrópusæti.

Hann hefur í heildina spilað 146 leiki og skorað 56 mörk fyrir Stjörnuna í Pepsi-deildinni og er langmarkahæsti leikmaður liðsins í efstu deild. Þá er hann næst leikjahæstur í efstu deild á eftir miðverðinum Daníel Laxdal.

Halldór Orri er annar Stjörnumaðurinn sem FH fær til sín eftir að tímabilinu lauk en áður var mættur Veigar Páll Gunnarsson. FH er því búið að fá til sín tvo af fimm leikjahæstu mönnum Stjörnunnar í efstu deild frá upphafi.

Auk Stjörnumannanna tveggja er FH einnig búið að fá til sín Guðmund Karl Guðmundsson, fyrirliða Fjölnis, og Vigni Jóhannesson, markvörð úr Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×