Enski boltinn

Frá Real Madrid til PSG og nú kannski til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jese Rodriguez.
Jese Rodriguez. Vísir/Getty
Liverpool hefur mikinn áhuga á spænska framherjanum Jese Rodriguez samkvæmt fréttum frá Spáni en forseti Las Palmas er búinn að gefa upp vonina að leikmaðurinn snúi aftur til síns æskufélags.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er hrifinn af Jese en hann er ekki sá eini.

Jese Rodriguez er 23 ára gamall og kom til Paris Saint Germain frá Real Madrid í ágúst. Hann hefur hinsvegar fengið fá tækifæri í París.

Stjórnarformaður PSG hefur gefið það í skyn að félagið ætli að selja Jese Rodriguez í janúarglugganum og það er mikill áhugi á honum hjá liðum utan Frakklands.

Miguel Angel Ramirez, forseti Las Palmas, hefur verið í sambandi við leikmanninn sem byrjaði ferill sinn hjá Las Palmas liðinu.

„Jese Rodriguez er frábær fótboltamaður. Hann vill koma til Las Palmas en PSG á hann og hann er með mjög há laun,“ sagði Miguel Angel Ramirez í viðtali við Las Provincia.

„Liverpool, AC Milan og Roma vilja öll fá Jese og þau eru tilbúin að borga honum þessi laun. Við höfum hinsvegar ekki efni á því,“ sagði Ramirez.

Jese Rodriguez skoraði 6 mörk í 38 leikjum með Real Madrid á síðustu leiktíð þar af fimm markanna í spænsku deildinni. Hann lék 62 leiki með Real Madrid frá 2013 til 2016.

Jese hefur skorað 1 mark í 9 leikjum með PSG í frönsku deildinni í vetur en hefur bara verið í byrjunarliðinu í einum leik. Eina markið hans kom í 2-0 sigri á móti Nantes sautján mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður.

Jese hefur ekki verið í hópnum í síðustu tveimur deildarleikjum og ekki spilað síðan að hann kom inná sem varmaður í 3-0 tapi á móti Montpellier 3. desember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×