Körfubolti

Njarðvík bætir við öðrum stórum Kana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Myron Dempsey í búningi Tindastóls.
Myron Dempsey í búningi Tindastóls. vísir/valli
Lið Njarðvíkur í Domino's-deild karla í körfubolta er búið að bæta við sig öðrum stórum Bandaríkjamanni. Myron Dempsey, sem áður spilaði með Tindastóli, er búinn að semja við Ljónin. Þetta kemur fram á karfan.is.

Njarðvíkingar eru búnir að leita logandi ljósi að stórum manni til að hjálpa sér í vandræðunum undir körfunni. Það bætti við sig Jeremy Atkinson og lét skotbakvörðinn magnaða Stefan Bonneau fara.

Atkinson verður áfram, að því fram kemur í frétt karfan.is. Hann og Dempsey munu því skipta með sér mínútunum undir körfunni hjá Njarðvíkurliðinu sem er í vondum málum með átta stig í tíunda sæti deildarinnar eftir ellefu umferðir.

Dempsey þekkir vel til í Domino's-deildinni. Hann spilaði allt tímabilið með Tindastóli er liðið komst í lokaúrslitin gegn KR tímabilið 2014-2015 en þá skoraði hann 21 stig að meðaltali í leik og tók tíu fráköst.

Hann kom aftur til landsins í byrjun árs til að hjálpa Stólunum á seinni hluta leiktíðinar og skoraði þá 17 stig og tók 6,5 fráköst að meðaltali í þeim fimmtán leikjum sem hann spilaði. Stólarnir féllu úr leik í undanúrslitum gegn Haukum.


Tengdar fréttir

Verst að fá ekki tækifæri til að kveðja

Stefan Bonneau hvarf óvænt á braut frá Njarðvík og úr Domino's-deildinni þegar ekki var samið við hann aftur. Þessi mikli háloftafugl og skemmtikraftur átti ekki von á ákvörðun Njarðvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×