Sport

Fyrrum Heisman-verðlaunahafi fyrirfór sér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Salaam í búningi Bears.
Salaam í búningi Bears. vísir/getty
Fyrrum NFL-leikmaður og Heisman-verðlaunahafinn, Rashaan Salaam, fannnst látinn í gær í garði í heimabæ sínum í Colorado-fylki.

Lögreglan hefur greint móður hans frá því að líklega hafi Salaam svipt sig lífi. Salaam var aðeins 42 ára gamall.

Á Salaam var miði sem gefur til kynna að hann hafi stytt sér aldur. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa upplýsingar um að svo sé.

Salaam lék með Colorado-háskólanum og árið 1994 vann hann hinn eftirsótta Heisman-bikar. Hann er veittur besta leikmanninum í háskólaruðningsboltanum á hverju ári.

NFL-liðið Chicago Bears valdi hann svo í fyrstu umferð nýliðavalsins en Salaam var valinn númer 21. Hann byrjaði NFL-ferilinn frábærlega er hann hljóp yfir 1.000 jarda og skoraði tíu snertimörk.

Svo fór hann að lenda í vandamálum með meiðsli og kannabis. Hann lék því aðeins í þrjú ár með Bears. Seinni tvö árin hljóp hann aðeins rúmlega 600 jarda samanlagt.

Árið 1999 var hann í hóp hjá bæði Cleveland Browns og Green Bay Packers. Hann lék aðeins tvo leiki með Cleveland en kom aldrei við sögu hjá Packers.

Salaam reyndi að komast aftur í NFL-deildina árið 2003 en var með þeim síðustu sem féllu út úr æfingahópi San Francisco 49ers. Þar með dó NFL-draumurinn endanlega.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×