Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Keflavík 96-76 | Haukarnir breiddu yfir þreytta Keflvíkinga

Henry Birgir Gunnarsson á Ásvöllum skrifar
Sherrod Wright skoraði 33 stig.
Sherrod Wright skoraði 33 stig. Vísir/Ernir
Haukar lentu ekki í neinum vandræðum með slakt, og að því er virtist mjög þreytt, lið Keflavíkur er liðin mættust á Ásvöllum í kvöld.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Ásvöllum og tók meðfylgjandi myndir.

Haukarnir mættu mjög vel stemmdir til leiks gegn sofandi Keflvíkingum sem voru fljótlega lentir átta stigum undir 10-8.

Hörður Axel dró vagninn einn fyrir Keflavík og það hélt þeim inn í leiknum. Níu stiga munur eftir fyrsta leikhluta, 24-15.

Keflvíkingar áttu frábæran sprett í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn í þrjú stig, 35-32. Þá hrukku Haukarnir aftur í gang og stýrðu umferðinni fram að leikhléi.

Er fyrri hálfleikur var allur var munurinn tólf stig, 48-36, þar sem Sherrod Wright og Emil Brja höfðu farið mikinn í liði Hauka á meðan Amin Stevens hélt Keflavík á floti lengstum með aðstoð frá Herði Axel og Ágústi Orrasyni.

Haukamaðurinn Haukur Óskarsson henti í smá þriggja stiga sýningu í þriðja leikhluta og með hann í banastuði náðu Haukarnir tuttugu stiga forskoti, 69-49.

Er aðeins einn leikhluti var eftir af leiknum var munurinn 19 stig, 71-52. Haukarnir miklu grimmari og fáir með meðvitund í liði Keflavíkur.

Haukarnir létu kné fylgja kviði i lokaleikhlutanum. Hleyptu Keflvíkingum ekki upp með neinn moðreyk og héldu áfram að bæta við forskotið.

Keflavík reyndi að berja frá sér undir lokin og minnkaði forskotið í 12 stig. Áhlaupið kom bara allt of seint. Haukur svöruðu svo fyrir sig og sigldu þessu örugglega heim. Þriðji sigur Haukanna sem komast þar með upp að hlið Keflavíkur í töflunni.

Af hverju unnu Haukar?

Haukarnir voru einfaldlega miklu tilbúnari í átökin í kvöld. Tóku völdin strax á vellinum og gáfu forskot sitt aldrei eftir.

Öll barátta var þeirra megin og varnarleikurinn sem liðið spilaði var til mikillar fyrirmyndar. Sherrod Wright er mikill happafengur fyrir liðið og svo voru fleiri góðir til í stíga upp með honum.

Er það reyndi á Haukana í leiknum þá sýndu þeir einfaldlega karakter með því að stíga upp og breikka forskotið á ný. Einfaldlega yfirburðaframmistaða hjá þeim.

Bestu menn vallarins?

Sherrod Wright var frábær í liði Haukanna með 33 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Emil Barja var með gríðarlega gott framlag líkt og svo oft áður. Stýrði líka vel hraða leiksins og róaði sína menn er þörf var á.

Haukur Óskarsson kom inn með flotta skotsýningu í þriðja leikhluta og Kristján Leifur Sverrisson var einnig drjúgur.

Amin Stevens í sérflokki í liði Keflavíkur með 26 stig og 17 fráköst. Hvort sem það voru skilaboð af bekknum eða ekki að þá reyndi hann of mikið sjálfur. Á móti kemur að liðsfélagar hans voru flestir meðvitundarlausir.

Hörður Axel kom sterkur inn en leikur hans ansi kaflaskiptur. Fór út af undir lokin og sagði við dómaranna að þeir hefðu verið ömurlegir í kvöld. Ekki góður endir á endurkomu hans í deildina.

Tölfræðin sem vakti athygli

Sherrod og Finnur Atli voru báðir með yfir 60 prósent skotnýtingu. Haukar að fá mikið út úr þeim.

Aðeins tveir leikmenn Keflavíkur skora yfir tíu stig sem segir margt um framlag flestra leikmanna Keflavíkur.

Haukar stálu tólf boltum á móti fimm. Varnarleikurinn frábær hjá Haukunum.

Hvað gekk illa?

Að sjá lið frá Keflavík mæta til leiks eins og það nenni ekki að spila er fyrir mér sérstök sjón enda alinn upp við að það eina sem mætti bóka frá Keflvíkingum væri barátta og harka. Það er greinilega af sem áður var.

Keflavík varð undir í allri baráttu og því átti liðið aldrei möguleika. Leikmenn virtust varla nenna að tala við hvorn annan eða peppa hvorn annan upp.

Ef Keflvíkingar rífa ekki upp andann hjá sér að þá verða stigin ekki mörg í pokanum þeirra. Það er næsta víst eins og kóngurinn Bjarni Fel sagði alltaf.

Haukar-Keflavík 96-76 (24-15, 24-21, 23-16, 25-24)

Haukar: Sherrod Nigel Wright 33/13 fráköst, Emil Barja 22/7 stoðsendingar, Haukur Óskarsson 17, Kristján Leifur Sverrisson 11, Finnur Atli Magnússon 9/7 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Hjálmar Stefánsson 4/10 fráköst.

Keflavík: Amin Khalil Stevens 26/17 fráköst/5 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 20/5 stoðsendingar, Magnús Már Traustason 8/5 fráköst, Ágúst Orrason 8, Guðmundur Jónsson 6/4 fráköst, Reggie Dupree 6, Daði Lár Jónsson 2.

Ívar: Verðum að spila þessa vörn áfram

„Þetta var ekkert létt. Keflavík er með þannig lið að það getur alltaf komið með rispur,“ segir Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.

„Varnarleikurinn var frábær hjá okkur og mér fannst sóknarleikurinn líka mjög fínn. Þó svo þeir hefðu minnkað muninn niður í þrjú stig þá fannst mér við vera að spila það vel að ég varð ekkert smeykur.“

Eins og áður segir var Ívar sérstaklega ánægður með varnarleikinn hjá sínum mönnum.

„Við vorum að vinna vel saman. Margir að skora og Haukur með stórar körfur er þeir nálguðust. Hann slökkti í þeim þá. Vörnin hjá Emil og Hjálmari stórkostleg á Hörð og svo var Sherrod frábær. Emil líka frábær í sókninni. Þetta var langbesti leikur Emils í vetur,“ segir Ívar sem hefur ekki haft áhyggjur af sínu liði þó það hafi ekki gengið nógu vel í vetur.

„Við höfum alltaf talað um að spilamennskan hjá okkur hefur ekkert verið arfaslök. Auðvitað hafa komið leikir sem voru ekkert spes en svona heilt yfir þá höfum við verið að spila ágætlega. Við höfum bara misst hausinn í fjórða leikhluta sem hefur kostað okkur sigra. Sherrod er líka mikill fengur því það er svo mikil hætta af honum að það fara margir í hann og þá opnast fyrir hina leikmennina.

„Við teljum okkur geta farið eins langt og við viljum. Þá verðum við að spila þessa vörn áfram og halda áfram að byggja á þessu og bæta okkar leik. Þessir strákar eru til í það og hafa verið að vinna í sínum málum. Menn voru ekki sáttir við öll töpin og hafa verið að æfa aukalega.“

Hjörtur var ekki sáttur með sína menn.vísir/ernir
Hjörtur: Þetta baráttuleysi er sálrænt

„Það vantaði baráttuna í okkar og það þriðja leikinn í röð,“ segir Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur, svekktur eftir tapið gegn Haukum í kvöld.

„Það vantar kraft og að menn séu tilbúnir að leggja sig fram. Stundum eiga menn misjafna daga og þetta er auðvitað sálrænt. Menn þurfa bara að gíra sig upp í að spila. Við vitum að menn vinna ekki ef þeir berjast ekki og við ættum að vita það núna eftir þriðja leikinn í röð þar sem við berjumst ekki.“

Hjörtur segir að Keflavík sé með betra lið en þetta. Það verði þó að sýna það.

„Ef við berjumst ekki þá gengur ekkert upp. Við tökum ekki fráköst og lausa bolta. Það er fullt af mönnum í okkar liði með hæfileika en menn þurfa að leggja sig fram og berjast,“ segir Hjörtur en hann vill ekki meina að innkoma Harðar Axels hafi truflað taktinn í liðinu.

Sigurður Ingimundarson er mættur aftur á bekkinn hjá Keflavík og það duldist engum að hann stýrði Keflavíkur-liðinu í kvöld.

„Hann er kominn til að vera. Hann var ráðinn sem þjálfari liðsins en fór svo í veikindaleyfi. Hann er kominn aftur og við eigum hellingsverkefni fyrir höndum. Þetta er áskorun fyrir okkur,“ segir Hjörtur en hvor er aðalþjálfari liðsins?

„Við erum eiginlega báðir aðalþjálfarar. Það er svo sem engin verkaskipting þannig. Við vinnum þetta saman og erum mjög sammála um hvernig körfubolti á að vera. Það er því ekki neinn ágreiningur.“

Bein lýsing: Haukar - Keflavík

Ívar segir sínum mönnum til.vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×