Körfubolti

Hjörtur: Þessi skortur á baráttu er sálrænt vandamál

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hjörtur var ekki ánægður með sína menn.
Hjörtur var ekki ánægður með sína menn. vísir/ernir
„Það vantaði baráttuna í okkar og það þriðja leikinn í röð,“ segir Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur, svekktur eftir tapið gegn Haukum í kvöld.

„Það vantar kraft og að menn séu tilbúnir að leggja sig fram. Stundum eiga menn misjafna daga og þetta er auðvitað sálrænt. Menn þurfa bara að gíra sig upp í að spila. Við vitum að menn vinna ekki ef þeir berjast ekki og við ættum að vita það núna eftir þriðja leikinn í röð þar sem við berjumst ekki.“

Hjörtur segir að Keflavík sé með betra lið en þetta. Það verði þó að sýna það.

„Ef við berjumst ekki þá gengur ekkert upp. Við tökum ekki fráköst og lausa bolta. Það er fullt af mönnum í okkar liði með hæfileika en menn þurfa að leggja sig fram og berjast,“ segir Hjörtur en hann vill ekki meina að innkoma Harðar Axels hafi truflað taktinn í liðinu.

Sigurður Ingimundarson er mættur aftur á bekkinn hjá Keflavík og það duldist engum að hann stýrði Keflavíkur-liðinu í kvöld.

„Hann er kominn til að vera. Hann var ráðinn sem þjálfari liðsins en fór svo í veikindaleyfi. Hann er kominn aftur og við eigum hellingsverkefni fyrir höndum. Þetta er áskorun fyrir okkur,“ segir Hjörtur en hvor er aðalþjálfari liðsins?

„Við erum eiginlega báðir aðalþjálfarar. Það er svo sem engin verkaskipting þannig. Við vinnum þetta saman og erum mjög sammála um hvernig körfubolti á að vera. Það er því ekki neinn ágreiningur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×