Menning

Óska engum að vera utanveltu

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Æfingar standa nú yfir á verkingu Hún Pabbi.
Æfingar standa nú yfir á verkingu Hún Pabbi. Vísir/Anton
Í nútímasamfélagi eru ýmsar leiðir til þess að framleiða „hina fullkomnu“ útgáfu af sjálfum þér. Internetið og samfélagsmiðlar eru sífellt að verða stærri hluti af lífinu og þar er sérstaklega auðvelt að stilla upp glansmynd af eigin sjálfi sem er laust við erfiðleika, skömm og – kannski sannleika. En það er líka til fólk sem framleiðir ímynd sína alla ævi, alls staðar. Fólk sem þorir kannski ekki að opinbera sitt sanna sjálf, horfast í augu við það og lifa eftir sannfæringu sinni. Ástæður þess geta verið margar og margslungnar; skömm, ótti eða jafnvel einhvers konar „tillitssemi“ í garð þeirra nánustu. Óttinn við að særa og verða öðrum til skammar,“ segja þær Kara Hergils og Halla Þórlaug, spurðar út í leikverkið Hún pabbi, sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í 6. janúar á næsta ári.

Þær Kara og Halla, höfundar verksins, segja undirbúninginn ganga vonum framar enda frábært teymi sem komi að verkinu með þeim, þar sem mikil samvinna fari fram til að koma boðskap verksins sem best til skila.

„Hannes Óli Ágústsson fer með einleik í verkinu, Pétur Ármannsson sér um leikstjórn, Kjartan Darri Kristjánsson er ljósahönnuður og tónlistin er í höndum Högna Egilssonar. Við erum nú þegar byrjuð að æfa og þetta fer allt saman vel af stað,“ segja þær spenntar.

Saga verksins stendur Hannesi Óla afar nærri þar sem faðir hans fór í kynleiðréttingarferli árið 2011. fréttablaðið/GVA
Saga verksins stendur Hannesi Óla afar nærri en faðir Hannesar fór í kynleiðréttingarferli árið 2011 og breytti þá nafni sínu úr Ágúst Már í Anna Margrét.

„Í æsku upplifði ég föður minn frekar fjarlægan, kannski eins og mjög týpískan kaldan íslenskan karlmann,“ segir Hannes, spurður hvernig hann upplifði föður sinn á sínum yngri árum.

Hún pabbi fjallar að mörgu leyti um sögu Hannesar sem aðstandanda transmanneskju og þá tíma sem faðir hans ólst upp við og þá tíma sem við lifum í dag.

„Grunnuppleggið er saga föður míns og mín sjálfs í þessum aðstæðum og mín leið til að ná utan um þetta allt saman. Það er nánast ómögulegt fyrir fólk að skilja þessar aðstæður og því finnst mér mikilvægt að koma þessu í lifandi form á fjölum leikhússins. Leikverkið fjallar mikið um gamla tímann, miðað við tímann sem við lifum núna, þetta eru gjörólíkir tímar hvað varðar trans en fordómar hafa að vissu leyti minnkað í samfélaginu í dag. Auðvitað er þetta ekki orðið norm en samt er þetta að opnast í umræðunni,“ segir Hannes og bætir við að pabbi hans hafi komið töluvert mikið fram í fjölmiðlum eftir að hún lauk kynleiðréttingarferlinu og hafi það að vissu leyti verið gert í ákveðnu forvarnarskyni.

„Maður óskar náttúrlega engum að vera utanveltu og ég vil að sjálfsögðu að allir geti lifað lífi sínu til fullnustu, markmið verksins er að vissu leyti að opna á umræðuna, efla fræðsluna, segja sögu aðstandenda og reyna að skilja þetta frá þeirra hlið,“ segir Hannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.