Íslenski boltinn

Emil heldur tryggð við Þrótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil leikur í rauðhvítu treyjunni næstu tvö árin.
Emil leikur í rauðhvítu treyjunni næstu tvö árin. mynd/þróttur
Framherjinn Emil Atlason hefur skrifað undir tveggja ára samning við Þrótt.

Emil gekk til liðs við Þrótt fyrir síðasta tímabil. Hann meiddist illa í leik gegn Stjörnunni í 3. umferð Pepsi-deildarinnar og spilaði ekki meira með á tímabilinu.

„Emil sýnir félaginu mikla hollustu með þessari undirritun. Hann fékk tilboð frá liðum í efstu deild, en er spenntur gagnvart fyrirætlunum okkar næstu árin og ákvað að taka slaginn; vera hluti af uppbyggingunni í Laugardal næstu árin,“ segir Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, í fréttatilkynningu á heimasíðu félagsins.

Emil, sem er 23 ára, hefur leikið 74 leiki í meistaraflokki með KR, Val og Þrótti og skorað 15 mörk. Þá lék hann til skamms tíma með Pruessen Münster í Þýskalandi. Emil lék tólf leiki með U-21 árs landsliðinu á árunum 2012-14 og skoraði átta mörk.

Þróttur endaði í tólfta og neðsta sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili og leikur því í Inkassodeildinni næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×