Fótbolti

Guardiola: Unnum besta lið í heimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola með hangandi hendi eins og Raggi Bjarna.
Guardiola með hangandi hendi eins og Raggi Bjarna. vísir/getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir sína menn hafa lagt besta lið heims að velli í kvöld.

Man City vann 3-1 sigur á Barcelona á Etihad vellinum í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld og hefndi þar með fyrir 4-0 tapið í fyrri leik liðanna á Nývangi.

City-menn voru í vandræðum lengst af í fyrri hálfleik og lentu undir á 21. mínútu þegar Lionel Messi skoraði sitt sjöunda Meistaradeildarmark í vetur.

Ilkay Gündogan jafnaði metin sex mínútum fyrir hálfleik og Guardiola sagði að mark Þjóðverjans hafi skipt sköpum.

„Þeir voru frábærir fyrsta hálftímann. Við áttum í miklum erfiðleikum en fyrsta markið hjálpaði okkur mikið,“ sagði Guardiola sem stýrði Barcelona á árunum 2008-12.

Spánverjinn hrósaði sínum mönnum fyrir spilamennsku þeirra í seinni hálfleiknum í kvöld.

„Við bjuggum til mörg tækifæri til að sækja hratt. Ég er svo ánægður fyrir hönd strákanna, þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum besta lið í heimi,“ sagði Guardiola.

Man City er með sjö stig í riðlinum, tveimur stigum á eftir Barcelona. Næsti leikur City-manna í Meistaradeildinni er gegn Börussia Mönchengladbach á útivelli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×