Fótbolti

Sjáðu draumamark bakvarðarins og hin geggjuðu mörkin í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thomas Meunier skoraði frábært mark.
Thomas Meunier skoraði frábært mark. vísir/getty
Það vantaði ekki tilþrifin í Meistaradeild Evrópu í fótbolta þegar fjórða umferð riðlakeppninnar hófst með átta leikjum. Seinni átta leikirnir fara fram í kvöld og verða fjórir þeirra í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Tvö glæsileg mörk voru skoruð í leik Basel og Paris Saint-Germian þar sem Birkir Bjarnason og félagar töpuðu á grátlegan hátt.

Frakklandsmeistararnir skoruðu sigurmarkið á 90. mínútu með mögnuðu skoti bakvarðarins Thomas Meunier. Hann tók boltann viðstöðulaust á lofti eftir sendingu frá Adrian Rabiot og skrúfaði boltann í netið á ótrúlegan hátt.

Aðeins skömmu áður hafði Mark Janko klúðrað dauðafæri meter frá marki fyrir Basel en það hefði mögulega tryggt svissnesku meisturunum í sigurinn. Í staðinn misstu þeir stigið sem þeir voru komnir með og þurftu að sætta sig við tap.

Basel skoraði aftur á móti frábært mark í leiknum en það gerði Luca Zuffi. Hann sá Alphonse Areola, markvörð PSG, standa aðeins of framarlega í teignum og lét bara vaða utan af kanti. Magnað mark hjá þessum 26 ára gamla Svisslendingi.

Arsenal lenti 2-0 undir gegn Ludogorets í Razgrad en var búið að jafna metin fyrir hálfleik. Það var svo undir lok leiksins sem Arsenal fullkomnaði endurkomuna og tryggði sér sigurinn, 3-2.

Markið skoraði Mesut Özil eftir sendingu inn fyrir vörnina frá Mohamed Elneny. Þýski töframaðurinn byrjaði á því að lyfta boltanum yfir markvörð búlgarska liðsins áður en hann fíflaði svo tvo varnarmenn upp úr skónum og skoraði. Algjörlega geggjuð afgreiðsla.

Í Madríd skoraði Antonie Griezmann bæði mörk spænska liðsins Atlético Madríd í 2-1 sigri á FC Rostov. Fyrra markið var einkar glæsilegt en hann tók boltann þá viðstöðulaust eftir sendingu inn á teiginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×