Körfubolti

Jón Arnór gæti spilað með KR fyrir áramót

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór Stefánsson er búinn að vera borgaralega klæddur það sem af er leiktíðar.
Jón Arnór Stefánsson er búinn að vera borgaralega klæddur það sem af er leiktíðar. vísir/anton brink
Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR í Domino's-deild karla í körfubolta, gæti snúið aftur fyrir áramót og spilað með Íslandsmeisturunum í fyrri hluta deildarkeppninnar.

Þetta kemur fram á heimasíðu KR þar sem segir að Jón Arnór fór í speglun síðastliðinn fimmtudag. Hann er verkjaminni, líður vel og er kominn á fullt í endurhæfingu.

Áætlað er að endurhæfingin taki um fjórar vikur og er því, sem fyrr segir, vonast til að þessi besti körfuboltamaður þjóðarinnar geti spilað með KR áður en fyrri umferðinni í Domino´s-deildinni lýkur.

KR hefur reyndar ekkert saknað Jóns en liðið trónir á toppi deildarinnar með átta stig af átta mögulegum en það er búið að pakka saman öllum mótherjum sínum. Nú síðast valtaði liðið yfir Hauka sem það mætti í lokaúrslitum deildarinnar í maí.

KR var einnig án Pavels Ermolinskij fyrstu þrjár umferðirnar vegna meiðsla en Pavel sneri aftur í sigrinum gegn Haukum og má búast við því að meistarar síðustu þriggja ára verði orðnir fullmannaðir fyrir áramót.

Jón Arnór spilaði síðast leik á Íslandsmótinu fyrir KR í lokaúrslitunum árið 2009 þegar vesturbæjarliðið vann Grindavík í frægum oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×