Fótbolti

Sögulegur árangur Leicester í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Englandsmeistarar Leicester gerðu markalaust jafntefli við Danmerkurmeistara FC Kaupmannahafnar á Parken í gærkvöldi í fjórðu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Leicester er að byrja frábærlega á sinni fyrstu leiktíð í Meistaradeildinni í sögu félagsins en liðið er á toppnum í G-riðli með tíu stig, þremur stigum á undan Porto. FCK er með fimm stig í þriðja sæti.

Leicester er ekki enn þá búið að fá á sig mark í Meistaradeildinni en árangur ensku meistaranna er sögulegur. Aldrei áður hefur lið spilað fyrstu fjóra Meistaradeildarleiki sína í sögu félagsins án þess að fá á sig mark.

Fyrir leikinn voru Refirnir aðeins eitt af þremur liðum í sögu Meistaradeildarinnar sem höfðu ekki fengið á sig mark í fyrstu þremur leikjum liðsins. Það sama gerði Parma árið 1997 og Málaga árið 2012.

Nú er Leicester eina liðið í sögunni sem hefur spilað fjóra fyrstu leiki sína í sögu Meistaradeildarinnar án þess að fá á sig svo mikið sem eitt einasta mark.

Ekki var mikið um færi í leiknum í gærkvöldi en Andreas Cornelius, framherji FCK, fékk gott skallafæri á 90. mínútu sem Kasper Schmeichel, markvörður Leicester, varði meistaralega út við stöngina.

Markvörsluna og allt það helsta má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×