Menning

Þarna liggja næfurþunn mörk á milli listar og lífs

Magnús Guðmundsson skrifar
Haraldur Jónsson við eitt af verkunum á sýningunni Leiðsla í Berg Contemporary.
Haraldur Jónsson við eitt af verkunum á sýningunni Leiðsla í Berg Contemporary. Visir/GVA
Okkur mannfólkinu er það kannski ekki í huga frá degi til dags en við verjum umtalsverðum tíma og orku í að átta okkur á umhverfi okkar og því rými sem við erum stödd í hverju sinni. Umhverfi mannsins hefur löngum verið Haraldi Jónssyni myndlistarmanni hugleikið og þannig er það einnig í nýrri sýningu sem hann opnaði nýverið í Berg Contemporary undir yfirskriftinni Leiðsla.

Haraldur segir að hann hafi í raun unnið að undirbúningi sýningarinnar frá því áður en galleríið hafi verið orðið til sem slíkt, heldur aðeins verið komið á teikniborðið. „Ingibjörg, eigandi gallerísins, bauð mér að vera með í þeim hópi listamanna sem eru á hennar snærum og að halda þessa sýningu fyrir um tveimur árum ef ég man rétt. Þá var ekki byrjað að innrétta hér en þar sem ég hef mikið verið að vinna með arkitektúr, tilfinningar og byggingar sem hugarástand þá hentaði það mér vel. Ég fór að hugsa um hvernig galleríið yrði í laginu, skoðaði grunnteikningar og fór í svona fjarskynjunarferli. Teikningarnar á sýningunni eru unnar með þessi húsakynni í huga. Þær eru eðlilega frekar geometrískar, í senn er í þeim flæði í bæði lit og línum þar sem hið ófyrirséða er mjög mikilvægt.“

Haraldur segist alltaf hafa verið mjög heillaður af arkitektúr sem myndlist. „Allt sem tilheyrir menningunni miðast við mannslíkamann og út frá því hef ég lengi verið hugfanginn af þeirri staðreynd að bygging er í raun og veru ílát utan um mannslíkamann. Bygging sem hugarástand og um leið rými fyrir ákveðna hreyfingu og virkni.“

Á sýningunni er stór veggur lagður undir vídeóverk af gjörningi sem Haraldur segist hafa gert á opnuninni. „Gjörningurinn tengir saman öll verkin á sýningunni. Ég fékk fimm sjálfboðaliða og svo úllendúllaði ég þar til það var ein manneskja eftir. Ég hjúpaði síðan viðkomandi áhorfanda með sérsniðnu teppi og leiddi hann um rýmið. Flestir koma á opnun og það verður til við það ákveðinn holdskúlptúr sem síðan hverfur og mig langaði einnig til þess að varðveita hann með einhverjum hætti. Þessi áhorfandi varð ósjálfrátt að mjúkum meitli þegar ég leiddi hann um mannfjöldann og það mynduðust rásir í salnum sem mótaðist af gestunum.“

Í verkum sínum leitast Haraldur meðal annars við að skoða þá farvegi sem við mótum í okkar daglega lífi með því hvernig við hreyfum okkur og ferðumst innan þess rýmis sem við lifum og hrærumst í. „Við erum auðvitað vanadýr rétt eins og sauðkindin. Við mörkum okkur slóða og persónulega stíga um net okkar daglega lífs. Hvort sem það er í gegnum borgina eða okkar eigin íbúð. Mér finnst þessar skilyrðingar í borgarsamfélaginu áhugaverðar og líka hvernig við skilyrðum okkur sjálf. Hvernig við hreyfum okkur innan um hluti, byggingar og annað fólk.“

Vídeóverkið er í senn skapað og sýnt innan listrýmisins en Haraldi er einnig hugleikið það sem er þar fyrir utan. „Í verkinu leiði ég manneskju út undir bert loft og hún mig. Við líðum um borgarskipulagið í ljósaskiptum skynjunarinnar, þangað til við komum aftur inn í galleríið á allt öðrum stað.“ Vídeóverkið vísar sömuleiðis til verks á gólfi sem er samansett úr ótalmörgum svörtum samanbrotnum landakortum. „Já, grunneiningin í því verki er svart landakort. Það snertir líka eitthvað mjög líkamlegt. Þau eru svört og því ólesanleg í hefðbundnum skilningi og minna kannski eilítið á verk sem ég gerði úr nafnspjöldum sem voru hvít báðum megin. Þau eru líka einhvern veginn að hverfa rétt eins og landakortin með tilkomu snjallsíma og gps-tækninnar.

Það finnst mér líka áhugavert. Þessi tilfinning fyrir því sem er að fara. Ég tók eftir því á opnuninni að sumir veigruðu sér við að fara þarna inn. Mér finnst spennandi að skapa þetta hik – þetta líkamlega ástand áhorfandans. Þarna liggja næfurþunn mörk á milli listar og lífs sem er spennandi að kanna.“

Þar sem Haraldur vinnur með þetta flæði og þau mörk sem við setjum okkur sjálf í því samhengi þá er hann að einhverju leyti meðvitaður um þetta dagsdaglega. „Ég reyni að brjóta upp mína farvegi, með misgóðum árangri reyndar, en ég reyni. Maður stendur jú aldrei undir sömu sturtunni. Galleríið er fyrir mér tilraunastofa þar sem ég get búið til kringumstæður sem kalla á viðbrögð og upplifun. Sá leikur finnst mér eitt af áhugaverðari viðfangsefnum listarinnar.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.