Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Skallagrímur 94-80 | Bonneau minnti á sig í mikilvægum sigri Njarðvíkinga

Aron Ingi Valtýsson í Ljónagryfjunni skrifar
Stefan Bonneau skoraði 30 stig.
Stefan Bonneau skoraði 30 stig. vísir/vilhelm
Njarðvík komst aftur á sigurbraut þegar liðið vann 14 stiga sigur, 94-80, á Skallagrími í Ljónagryfjunni í 5. umferð Domino's deildar karla í kvöld.

Stefan Bonneau sýndi gamalkunna takta og var stigahæstur í liði Njarðvíkur með 30 stig. Björn Kristjánsson kom næstur með 20 stig.

Flenard Whitfield var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 27 stig og 12 fráköst. Sigtryggur Arnar Björnsson átti einnig góðan leik með 24 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar.

Fyrir leikinn var spurningin hvernig Njarðvíkingar myndu tækla stöðuna inní teig eftir að hafa rekið erlenda leikmanninn sinn heim. Páll Kristinsson leysti það engu að síður með miklum sóma og hélt Flenard í skefjum.

Í fyrri hálfleik leiddu Njarðvíkingar með 4 stigum. Þeir pressuðu fullann völl eftir skoraða körfu og reyndist það erfitt. Skallagrímur tapaði 13 boltum á þessum fyrstu 20 mínútum og nýttu heimamenn það í hraðaupphlaupum.

Njarðvíkingar komu mun sterkari inní seinni hálfleik og náðu góðu forskoti. Finnur náði að spíta einhverjum baráttuanda í sína menn undir lok 3. leikhluta og komu þeir sér aftur inní leikinn. En á síðustu tíu mínútum  leiksins skutu heimamenn gestina í kaf og sigldu sigrinum í höfn.

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvíkingar voru mun ákveðnari í leiknum en gestirnir. Það var mikill baráttuvilji sem skilaði þessum sigri í kvöld. Þeir gáfu tóninn í byrjun fyrsta leikhluta. Skallagrímur var allan leikinn að elta sem reyndist þeim erfitt og heimamenn hleyptu þeim full nálægt sér á köflum en tóku þá góða syrpu og komu sér aftur í 10 stiga forustu.

Hitinn fyrir utan þriggja stiga línuna var það sem hélt heimamönnum í forustu allan leikinn. Björn Kristjánsson setti niður 6 þrista og Stefan Bonneau var með 5. Ef Njarðvík ætla að eiga séns í önnur lið verða þeir að halda áfram að skjóta svona vel fyrir utan, en þurfa hins vegar að sækja fleiri stig inní teig.

Ungu leikmennirnir líta mjög vel út hjá Njarðvíkingum og eru að skila sínu framlagi hjá liðinu. Þess er að geta 18 ára pilltinn Snjólf Marel Stefánsson, en spilaði hann 30 mínútur í leiknum, skoraði 4 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar ásamt því að djöflast í Kana Skallagríms í vörninni.

Bestu menn vallarins:

Gamli kallinn í Njarðvíkurliðinu átti góðan leik og hélt Flenard í skefjum. Páll Kristinsson sem er 40 ára gamall stóð eins og stytta inní teignum og átti Flenard í miklum erfiðleikum með að athafna sig.

Stefan var allt í öllu hjá heimamönnum. Boltameðferð hjá honum reyndist gestunum erfið. Ef hann skaut ekki sjálfur fyrir utan réðst hann á körfuna eða dældi boltunum á liðsfélaga sína sem nýttu skotin vel.

Logi Gunnarsson átti góðan leik í kvöld, nýtti skotin sín vel og stjórnaði liðinu sínu eins og herforingi. Var ákveðinn og dró allt liðið með sér í þessa baráttu sem skilaði góðum sigri.

Þrátt fyrir villuvandræði hjá bæði Sigtryggi og Flenard þá skiluðu þeir stórum körfum fyrir Skallagrím í kvöld, eða 49 stigum af 80 og eiga mikið hrós fyrir. Flenard var einnig frákastahæsti leikmaður vallarins í kvöld með 12 fráköst.

Hvað gekk illa?

Skallagrímur átti í miklum erfiðleikum með að halda boltanum innan síns liðs. 21 tapaðir boltar var svarti sauðurinn hjá gestunum í kvöld. Þess á milli voru mikil vandræði í sókninni, mikil leikleysa sem skilaði sér í erfiðum og lélegum skotum.

Njarðvíkurliðið var ekki hátt í loftinu fyrir tímabilið og batnaði það ekki þegar þeir sendu annan erlenda leikmanninn heim fyrir þennan leik. Gestirnir taka 21 sóknarfrákast sem hélt þeim inní leiknum framanaf.

Tölfræði leiks:

Njarðvík-Skallagrímur 94-80 (21-13, 28-32, 20-16, 25-19)


Njarðvík: Stefan Bonneau 30, Björn Kristjánsson 20/5 stoðsendingar, Logi  Gunnarsson 14/5 stoðsendingar, Johann Arni Olafsson 9/4 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 9, Páll Kristinsson 8/6 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 4/8 fráköst.

Skallagrímur: Flenard Whitfield 27/12 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 24/7 fráköst/6 stoðsendingar, Bjarni Guðmann Jónson 11/7 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 8/5 fráköst, Darrell Flake 5/6 fráköst, Davíð Ásgeirsson 3, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 2.

Daníel: Þurfum að athuga með annan stóran mann

Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var mjög sáttur með baráttuna í sínum leikmönnum. Þótt þeir væru litlir gáfu þeir ekkert eftir undir körfunni.

„Ég var mjög ánægður með ákefðina og varnaleikinn. Stóðum okkar plikt og gerðum að sem við áttum að gera,“ sagði Daníel eftir leik.

Daníel hefur áhyggur af því hversu þunnur hópurinn er orðinn þegar mótið er ný hafið.

„Ég hef mjög lítinn áhuga á að vera í þessari stöðu, við þurfum að athuga með annan erlendan leikmann, allaveganna stóran leikmann. Við þurfum einhverja stóra leikmenn.“

Páll Kristinsson fær mikið hrós frá þjálfaranum en Daníel getur ekki treyst á hann í allan vetur.

„Við unnum með það sem við höfðum í dag og Palli skilaði flottum 25 mínútum en hann er ekki að fara að gera það allt tímabilið þannig að við verðum að skoða það aðeins. Heilt yfir þá gerðum við það sem við áttum að gera og það skilaði sigri í dag,“ sagði Daníel að lokum.

Finnur: Þeir hoppa aftur á bak, fram og aftur

„Vörnin klikkar hjá okkur bara. Fengum 94 stig á okkur. Bara allt of mikið,“ sagði Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, svektur með spilamennsku sinna manna í kvöld.

Hann var ekki sáttur með sína menn sem köstuðu boltanum frá sér 21 sinni.

„Það truflar okkur að sjálfsögðu mikið, 21 tapaður bolti en það er eitthvað sem við þurfum að vinna í,“ sagði Finnur og bætti við:

„Við erum bara að kasta boltanum útaf. Þetta er bara kæruleysi, en ég er ekkert að setja út á pressuna þeirra en þetta var bara kæruleysi og einbeitingarleysi.“

Líkt og Magnús fannst Finni Flenard fá ódýrar villur á sig.

„Hann er bara flautaður út finnst mér og við getum ekki notað hann í seinni hálfleik,“ sagði þjálfarinn ósáttur.

Logi: Erum með besta bakvarðarsveitapar á landinu

Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur, var mjög ánægður með leik sinna manna í kvöld

„Það var bara ákefð og barátta, við börðumst út um allan völl,“ sagði Logi eftir leik.

Logi er einn besti skotmaður landsins og telur hann að sitt lið hafi bestu skyttur landsins.

„Ég myndi telja að við værum með besta bakvarðarsveitapar á landinu, við erum með þrjá, fjóra bakverði sem geta dottið í ham og skotið út um allann völl,“ sagði Logi.

Magnús: Við eigum hvort sem er ekkert að vinna

Skallagrímur hefur ekki byrjað veturinn vel, en hafa náð nokkrum góðum köflum í hverjum leik.

„Þetta var bara svipað og í síðustu leikjum, við spilum vel í nokkrar mínútur og svo spilum við alltof illa í nokkrar mínútur,“ sagði Magnús Gunnarsson eftir heldur dapran leik sinna manna í kvöld.

Magnús var ekki ánægðu með dómana og villurnar sem Flenard fékk á sig en hann var kominn með 4 villur í byrjun 3. leikhluta.

„Það var mjög asnalegt að allt í einu í fimmta leik sem við spilum þá ætla þeir að dæma ruðning á allt sem að hann gerir. Það er alveg út í hött. Hann er búinn að spila svona í öllum hinum leikjunum,“ sagði Magnús.

Bein lýsing: Njarðvík - Skallagrímur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×